149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil bara ómögulega hvernig það getur vegið að tjáningarfrelsi annarra þingmanna þó að ég tali fyrir munn flokks míns og eftir sannfæringu minni og haldi því fram að sumt af því sem borið hefur verið á borð sé rangindi, hálfsannleikur. Ég hef ekki borið neinn sérstakan þingmann fyrir því en ég hef sagt að þetta hefur tíðkast.

Tjáningarfrelsið felst svo í því að það koma aðrir þingmenn úr öðrum flokkum og fullyrða svo ýmislegt um mig og Samfylkinguna og andstæð öfl. Það er bara ekkert að því. Ég býst við að ágætur hv. þm. Inga Sæland, sem er nú með orðhvatari þingmönnum, sé ekki algjörlega saklaus af því að hafa fellt sleggjudóma yfir mér og öðrum.