149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:03]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir mjög góða og upplýsandi ræðu. Hann hefur einnig skrifað nokkrar greinar um málið sem hafa átt sinn þátt í því að koma réttum upplýsingum á framfæri. Eins og þingmaðurinn nefndi þá er það hlutverk okkar þingmanna að rannsaka mál og koma réttum upplýsingum á framfæri og taka ákvarðanir á grundvelli þeirra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem á sæti í utanríkismálanefnd ásamt þeirri sem hér stendur, hvort hann telji yfirferð nefndarinnar ekki hafa verið fullnægjandi og hvort þar standi eitthvað út af sem hann telji að nefndarmenn hefðu e.t.v. átt að kalla eftir áður en nefndin ákvað að taka málið út. Ég held að ég hafi náð ágætlega utan um þær upplýsingar sem þingmaðurinn lagði fram varðandi valdheimildir ACER og starfsemi þeirrar stofnunar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er eitthvað — svona til að ná þessu skýrt fram — í orkupakka þrjú sem felur í sér afsal á yfirráðum yfir orkuauðlindum? Er eitthvað þar sem gerir þá kröfu á ríki að flytja tiltekið magn af orku til annars ríkis eða virkja eitthvað ákveðið mikið?

Að síðustu — já, ég á nokkrar sekúndur eftir — langar mig einnig til að spyrja hv. þingmann: Kemur eitthvað fram í orkupakka þrjú sem gefur til kynna að einhverjir í Brussel muni ákveða hvernig orka verður verðlögð hér á landi í framtíðinni?

Ég ætla að láta gott heita og spyrja frekari spurninga í seinna andsvari.