149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðu hans. Það er auðvitað margt í þessu stóra máli sem menn hafa áhyggjur af og mér þótti ágætt að hv. þingmaður kom inn á það að hann væri ekki sammála þeirri skilgreiningu að það væri ekkert að í málinu, eins og haldið hefur verið fram af ýmsum stuðningsmönnum þess.

En af því að augljóst er af ræðu þingmannsins að hann er búinn að setja sig vel inn í málið þá langar mig að inna hann eftir því hvernig það horfi við honum hver megináhrifin af samþykkt þessa orkupakka, ef við tölum bara um öll málin sem einn pakka, verði frá samþykkt málsins fram að lagningu sæstrengs, komi hún til, á núverandi stöðu? Þá er ég t.d. að hugsa um hvort hv. þingmaður telji einhver áhrif verða hvað varðar mögulega kröfu um uppskiptingu fyrirtækja. Eins og við þekkjum er Landsvirkjun afgerandi stærsti orkuframleiðandi landsins. Er eitthvað þarna að mati þingmannsins sem opnar á slíka nálgun hvaðan sem það kynni að koma?

Hver yrðu megináhrifin frá samþykkt til lagningar sæstrengs? Þetta er sá hluti tímalínunnar sem mjög lítið hefur verið rætt um og í ljósi þess hversu vel hv. þingmaður hefur sett sig inn í málið væri áhugavert að heyra þetta.