149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir yfirferð hennar. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að ekki væri um ákvæði um valdframsal að ræða. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hún túlki þá álitsgerð sem skrifuð er af Stefáni Má Stefánssyni og Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst og ég vitna til, með leyfi forseta:

„Verði 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 tekin upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt í óbreyttri mynd mun reglugerðarákvæðið fela í sér framsal framkvæmdarvalds til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda. […] Ekki eru fordæmi fyrir slíku valdframsali til alþjóðlegra stofnana á grundvelli EES-samningsins.“

Nú er ég ekki lögfróður, en ég tek orð þeirra fyrir þessu og ég get ekki að því gert að ég staldra við. Mér finnst skrýtið að stór hópur fræðimanna og þeirra sem eru lesnir í lögum geri slíka fyrirvara, sem telja að verið sé að framselja vald, telja að verulegur vafi leiki á því hvort verið sé að brjóta stjórnarskrána og af hverju við tökum þá þessa leið. Af hverju veljum við þessa leið? Mér þætti vænt um að fá svör við því hvernig hv. þingmaður lítur á það og hvort það sé önnur leið sem gæti verið betur til fallin.

Ég held að það sé svolítið bratt að fullyrða að allir þeir sem eru á öndverðri skoðun við fylgjendur orkupakkans (Forseti hringir.) séu hreinlega bara úti í móa og séu ólæsir á þennan texta.