149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:12]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni kærlega fyrir mjög gott andsvar. Það er gott að fá tækifæri til að draga þetta enn betur fram en ég gerði kannski í ræðu minni áðan. Hér vitnaði þingmaðurinn í setningar úr álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, sem er ein af þeim álitsgerðum sem hv. utanríkismálanefnd hafði til umfjöllunar á fundum sínum um málið. Ég virði það við hv. þingmann að hann situr hér sem varamaður og hefur kannski ekki fengið tækifæri til að fylgjast nægilega vel með umræðunni í fyrstu umferð málsins. En þar komu þessar efasemdir einmitt fram og þess vegna ræddi nefndin þær sérstaklega, akkúrat þetta.

Er eitthvað þarna á ferðinni sem gefur okkur tilefni til að ætla að við séum að framselja vald? Það var niðurstaða nefndarinnar eftir að hafa hitt þá menn sem rituðu álitsgerðina og eftir að hafa hitt fleiri aðila sem höfðu sérþekkingu á þessu sviði, að um valdframsal væri ekki að ræða. Ég vitna hér í bréf sem Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst sendu til hæstv. utanríkisráðherra, dagsett 10. apríl sl., þar sem skilaboðin voru svolítið misvísandi hvað þetta varðaði. En þar segja þeir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“ (Forseti hringir.)

Ég mun fara yfir þessa aðra leið í seinna svari.