149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:17]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum enn og aftur fyrir góðar spurningar. Ég fór, held ég, ágætlega yfir þessa svokölluðu aðra leið í ræðu minni áðan og einnig er farið yfir það í nefndaráliti meiri hlutans hvað slík leið myndi þýða og fela í sér. Eins og ég sagði er þetta eitthvað sem lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst skildu eftir fyrir nefndina að rannsaka. Þeir nefna að til sé önnur leið en hún sé vissulega ekki gallalaus, þannig að nefndin, samviskusamlega, fékk til sín aðila, bæði Carl Baudenbacher, títtnefndan, sem og sérfræðinga frá Háskóla Reykjavíkur til að upplýsa okkur um einmitt þetta, hvort þetta væri fær leið og hvaða afleiðingar hún myndi þá hugsanlega hafa.

Ég vil samt sem áður ítreka að flestir þeir sem komu með sín álit varðandi stjórnarskrárspurninguna voru á þeirri skoðun að við þyrftum alls enga fyrirvara til að gæta öryggis og vera alveg pottþétt. Þá var samt sem áður ákveðið að setja þann fyrirvara sem nefndur hefur verið, þ.e. sérstakt frumvarp um sæstreng.

Bréfið sem ég las upp úr áðan er ekki viðbót við álitsgerð Stefáns Más og Friðriks, heldur er það árétting á álitsgerðinni sem fyrir lá þar sem menn náðu, sumir hverjir, að mistúlka, slíta hana úr samhengi og grauta öllu saman og tengja nöfn þeirra sérfræðinga við það. Því töldu þeir mikilvægt að árétta (Forseti hringir.) álit sitt þannig að menn skildu hvað þeir ættu við.