149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:19]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég las á Twitter áðan að það væri eitthvað ljóðrænt við það að Alþingi ræddi þriðja orkupakka ESB á sama tíma og þjóðin væri límd fyrir framan sjónvarpið til að horfa á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Okkar fólki gekk vel. Svo er bara að bíða og sjá hver úrslitin verða síðar í kvöld. En áfram Ísland.

Ég vil byrja á því að þakka utanríkismálanefnd og því góða fólki sem þar er fyrir samvinnuna, óháð því hvaða skoðanir við höfum á málinu. Það var gaman að vinna að þessu máli. Fara þurfti yfir ákveðnar spurningar, ekki spurning. Við eigum að taka alvarlega þær áhyggjur sem settar hafa verið fram í málinu. Áhyggjur sem byggt hafa á rökum og málefnalegri nálgun. En það þurfti náttúrlega líka að fara yfir annað sem var kannski ekki eins málefnalegt.

Ég vil sérstaklega þakka formanni nefndarinnar fyrir mjög gott starf og ég hef sagt það einhvers staðar á samfélagsmiðlum að á þeim árum sem ég hef verið á þingi, sem eru víst orðnir einhverjir áratugir, er þetta með því allra besta í vinnu nefndar. Bæði formaðurinn og allt nefndarfólkið á heiður skilinn fyrir að hafa unnið mjög af einurð og einlægni í þessu máli.

Það var allt opið og margítrekað varðandi gestakomur og álit. Á endanum þurfti nefndin síðan að segja stopp og fara yfir gagnagrunna, sem var gert. Að mínu mati var snert á öllum þeim álitaefnum, öllum þeim athugasemdum sem nefndinni bárust og hafa verið reifaðar síðan víða í samfélaginu. Það veitir okkur meira öryggi, meiri vissu, meiri festu um að við eigum að vera ákveðin í því mikilvæga skrefi sem við tökum með því að innleiða þriðja orkupakkann og undirstrikar mikilvægi okkar helsta alþjóðasamnings, sem EES-samningurinn er, sem hefur verið ótrúlega farsæll fyrir íslenska þjóð.

Það var margítrekað í máli atvinnulífsins hversu gríðarlega mikil áhrif samningurinn hefði haft á atvinnulíf okkar, líka á tækifæri unga fólksins til þess að mennta sig, fara í rannsóknir, vita að það gæti farið víða í háskóla. Það er mikilvægt fyrir lítil fyrirtæki, meðalstór fyrirtæki að vita að heimurinn er ekki eingöngu hér heima heldur stærri og að það eru gagnvegir. Þannig að það er ekki hægt að ýkja áhrif EES á íslenskt atvinnulíf því að umhverfið er að verða alþjóðlegra, við verðum að hafa það hugfast, sama hvað hver segir. Það er að verða alþjóðlegra með hverju árinu sem líður og þá verðum við að vera í stakk búin til þess að taka af fullum krafti þátt í því.

Þetta er liður í því og það er mikilvægt, þó að ég vilji segja það strax varðandi efasemdir um stjórnarskrána, að búið er að hrekja það í hverri ræðunni á fætur annarri, og búið er að hrekja það af gestum, að þessi leið fer ekki gegn stjórnarskránni. En þetta er heldur ekki samningur sem við eigum að nota bara af því að það hentar pólitíkinni, og nota sem tæki til að grafa undan okkar mikilvæga EES-samningi, því að það er ekkert grín að gera það. Það er fúlasta alvara. Við viljum auðvitað að standa vörð um hagsmuni okkar þegar við þurfum raunverulega á því að halda. Þá er varasamt að vera þá búinn að kalla „úlfur, úlfur“ sí og æ.

Allar áhyggjur af því að við séum að fara í eitthvert valdframsal, að við förum gegn stjórnarskránni, hafa verið hraktar.

Mér finnst mikilvægt að við séum að tala fyrir því að innleiða þennan þriðja orkupakka sem hefur margvísleg áhrif, jákvæð áhrif og hefur líka haft í gegnum fyrsta og annan orkupakkann jákvæð áhrif inn í samfélag okkar, fyrirtækjamenningu okkar, í sambandi við það að fá betra verð til neytenda og heimila í landinu og markvissari orkuöflun og -miðlun.

Þetta er líka mikilvægt. Ég tel það fagnaðarefni að það eru flokkar, stjórnmálafólk sem þorir að stíga fram og láta ekki bara yfir sig ganga rangfærslur, jafnvel afbökun á staðreyndum, láta ekki hentisemi ráða í málflutningi sínum. Ég er ekki að segja að það séu allir þannig. Ég er alls ekki að segja það, en það hefur borið við, á meðan aðrir hafa komið fram með ákveðnar athugasemdir sem vert er að staldra við og fara yfir. Það gerði hv. utanríkismálanefnd. Ég er svo fegin að sjá að við ætlum ekki að leyfa því að gerast hér sem gerðist í Bretlandi í tengslum við Brexit þar sem allir, eða langflestir sem komu að þeim kosningum viðurkenndu að þeir fóru ekki alveg rétt með staðreyndir. Það þurfti aðeins að hliðra til staðreyndum til að fá þessa niðurstöðu. Það hafa bæði heimildarmyndir og fleira dregið fram.

Það er afbökun á lýðræðinu, það er ógnun við lýðræðið þegar hagsmunasamtök, jafnvel stjórnmálaflokkar eru byrjaðir að vinna á þessum forsendum. Þannig að ég er fegin því að það er alla vega verið að spyrna við ákveðinni Bannon-væðingu Íslands. Við ætlum ekki að láta hana ganga yfir okkur átölulaust. Það er að hluta til fagnaðarefni að við getum beitt okkur í gegnum þriðja orkupakkanum og fengið fólk til okkar á fundi og farið yfir þessar athugasemdir.

Út á hvað gengur þriðji orkupakkinn? Nokkrir hafa farið yfir það í dag.

Ég vil líka undirstrika að fram kom á fundum nefndarinnar að þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa núna á síðari stigum eru nýjar. Starfsfólk hins opinbera, sem verið hefur að vinna í þriðja orkupakkanum alveg frá upphafi, sagði á fundi nefndarinnar að þessar raddir hefðu ekki komið fram á fyrri stigum og að ekki hefði verið gerður fyrirvari eða komið með athugasemdir. En við gerðum það ekki á fyrri stigum óháð því hvað ríkisstjórn var við völd. Þær hafa bæði verið vinstri og hægri, allir flokkar. Það er ekkert verið að áfellast einn eða neinn, miklu frekar er verið að segja að íslenska utanríkisþjónustan hafi staðið vaktina ásamt hagsmunasamtökum sem haft var samráð við, hvort sem það var þá ASÍ eða Samtök atvinnulífsins. Þau koma ekki fram með þær athugasemdir sem koma fram núna.

Við Íslendingar náðum fram fyrirvörum í gegnum ferlið, m.a. varðandi það að eigendauppskipting á dreififyrirtækjum ætti ekki við um Ísland. Það er risamál fyrir okkur. Það er líka risamál fyrir okkur að við náum í gegnum þriðja orkupakkann meiri árangri við að sinna hagsmunagæslu okkar en í fyrri innleiðingar, t.d. á persónuverndartilskipuninni eða Fjármálaeftirlitinu, af því að við fáum fulltrúa við borðið þegar kemur að alþjóðastofnuninni í tengslum við ACER, þó að við höfum ekki atkvæðisrétt. En við erum með tillögurétt og málfrelsi.

Það er meira en við höfum náð í gegn með innleiðingum á þeim gjörðum sem við erum þegar búin að samþykkja. Það er gríðarlega mikið atriði. Mér finnst leiðinlegt að heyra fólk tala niður þó þann árangur sem íslenskir stjórnmálamenn hafa náð þvert á flokka. Við höfum verið að vinna nokkuð samhent í því að passa upp á það gullegg sem EES-samningurinn er. Þess vegna er það ábyrgðarhluti þegar menn og konur koma fram og slengja einhverju fram og hlusta síðan ekki á svörin. En því er haldið fram aftur og aftur í þeirri von og út frá þeirri reynslu að utan að smám saman nái rangfærslurnar í gegn.

Þess vegna vil ég undirstrika að ég er glöð að sjá flokka í stjórn og stjórnarandstöðu ná saman um að segja stopp við bullinu. Ég heyrði það á ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að við í stjórnarandstöðunni værum stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar. Ég er að reyna að nálgast pólitíkina pínulítið öðruvísi en ég gerði áður. Það hefur verið svolítil lenska í íslenskri pólitík að sumir hafa það viðmið að ef maður er í stjórnarandstöðu þá er maður á móti, sama hvað gerist. Reyndar mætti ríkisstjórnin aðeins taka tillit til stjórnarandstöðunnar og koma til móts við hana. Ég gagnrýni ríkisstjórnina í dag fyrir að hún hefur ekki í neinu komið til móts við okkur í stjórnarandstöðunni, hún hefur frekar sleppt því að taka undir ýmis mál sem við höfum lagt fram. En gott og vel. Ég bind vonir við að það breytist. Það nóg eftir af kjörtímabilinu og við getum hægt og rólega náð að vinna gegn þessum vinnubrögðum. Það skiptir mig ekki máli hvaðan gott kemur.

Við í Viðreisn erum að reyna að vinna þannig að við tökum málefnalega á hlutum. Bara síðast í gær vorum við að samþykkja risamál fyrir kvenfrelsi, fyrir réttindabaráttu í landinu, óháð því að málið kæmi frá ríkisstjórninni. Það sama er með orkupakkann. Það er risahagsmunamál. Af hverju segi ég risahagsmunamál? Fyrst við tölum um Brexit — af því að okkar er ábyrgðin, að vera ekki að spila með hagsmuni og framtíð ungs fólks. Unga fólkið kallar á opnun — ekki lokun heldur opnun. Að við séum í alþjóðasamstarfi stolt, með reisn yfir okkur af því að við getum miðlað svo mörgu.

Þekking okkar á ákveðnum sviðum er gríðarlega mikil. Ég horfi á fræðimenn okkar Íslendinga í gegnum tíðina, t.d. vísindamenn á sviði jarðfræði. Við getum miðlað svo mörgu, úr jarðfræði, orkumálum, menningu, svo ég tali nú ekki um sjávarútveginn. Þannig að við eigum ekki að skammast okkar í alþjóðasamstarfi heldur koma af fullri reisn inn í það af því að við getum miðlað af svo mörgu. Við finnum að við sem höfum verið, hvort sem það er í EFTA- eða EES-nefndinni, eða NATO, verið ráðherrar, finnum að það er hlustað á okkur á þeim sviðum sem við beitum okkur í. Það skiptir máli.

Ég get gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki komið fyrr fram með þriðja orkupakkann af því að hún var svolítið að bögglast með það, kannski ekki síst vegna innanflokksátaka tiltekinna flokka. Ég vil frekar gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki komið fyrr fram með orkupakkann, að hafa gefið þeim röddum rými sem haldið hafa uppi rangfærslum. Og þær hafa fóðrast svolítið á því á þeim tíma meðan ríkisstjórnarflokkarnir þurftu að leysa úr málum innan sinna raða.

En gott og vel, þetta mál er komið fram. Það er komið hingað til málefnalegrar umræðu eftir mjög ítarlega vinnu allra flokka, sem er mikilvægt. Þess vegna segi ég að við skulum ekki vera að spila með framtíð ungs fólks.

Ég er komin hingað líka til að segja: Út á hvað gengur þriðji orkupakkinn? Hann gengur ekki út á það að lagðar verði á okkur þær skyldur að leggja sæstreng. Það er allt í okkar höndum. Og það er hvimleitt þar sem farið er yfir það aftur og aftur á fundum nefndarinnar að áfram sé ýjað að því að það sé samt ekki í okkar höndum.

Ábyrgð stjórnmálamanna, forystufólks í stjórnmálum, er mikil, að koma hingað upp í þennan stól og segja að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru í rauninni. Það eru engar skyldur lagðar á okkur Íslendinga að leggja sæstreng. Það vald er í okkar höndum. Við getum tekið umræðuna síðar. Það er rétt sem ríkisstjórnin gerir, að hnykkja enn frekar á réttindum okkar hér á þingi, að það þurfi aðkomu þingsins með frumvörpum, nýsköpunar- og atvinnuvegaráðherra, ef gera á breytingar. Það er rétt skref, skynsamlegt skref. Þetta er allt í okkar höndum.

Þriðji orkupakkinn hefur enga merkingu varðandi einkavæðingu á eignarhaldi, markaðsvæðingu. Nú er alið á þeim ótta að við ætlum að fara að selja Landsvirkjun, fyrirtæki í eigu þjóðarinnar. Það er ekki á stefnuskrá míns flokks og ég efast um að það sé meiri hluti fyrir því hér á þingi, bara alls ekki. Þess þá heldur var erfitt að hlusta á gesti í nefndinni, bæði utanríkismálanefnd og núna í morgun í atvinnuveganefnd. Ég á því láni að fagna að sitja í báðum nefndum og fá orkupakkann margfalt í æð. Mér finnst vont að heyra þegar gestir koma og segja: Nei, það þarf ekkert endilega mikið gegnsæi varðandi orkumálin. Við þurfum ekki þessa samkeppnisreglur. Við þurfum ekki að festa betur eftirlitið gagnvart ríkisstofnunum sem stjórna orkumarkaðinum, að við gerum kröfur um gegnsæi.

Við gerum kröfur um það að íslenska þjóðin, sem er eigandi Landsvirkjunar, fái rétt verð fyrir orkuna. Það kom fram á fundi í nefndinni að við ættum ekkert að vera að hafa þetta allt of gegnsætt. Ég undirstrika: Landsvirkjun á að vera í eigu þjóðarinnar og þjóðin á kröfu og setur fram kröfu um að við fáum sem best verð fyrir orkuna.

Þegar við horfum aftur í söguna, til að mynda þegar við fórum af stað 1968 við að byggja upp álverið í Straumsvík sjáum við að það hefur haft gríðarleg áhrif, jákvæð áhrif inn í íslenskt samfélag. Við byggðum upp þekkingu, við byggðum upp innviði og við löðuðum að okkur fyrirtæki til að styrkja orkuöflun og raforkuöryggi allra landsmanna. Það var þá.

Síðan erum við búin að þróast. Við erum búin að skapa sterkari grunnstoðir undir íslenskt samfélag, með sjávarútvegi, með ferðaþjónustu og ýmsu öðru. Krafan í dag, ekki síst frá ungu fólki, er að við niðurgreiðum ekki neitt í gegnum eitthvert pukur, að við minnkum ekki gegnsæi og setja málin bara í hendur á stjórnmálamönnum, allt eftir því hvernig vindar blása, hvað kjördæmið segir o.s.frv. Það er ekki verið að biðja um það lengur. Ég er ekki að tala niður þær ákvarðanatökur í gegnum tíðina, ég skil hvernig það var þá. En í dag er þetta ekki boðlegt.

Við viljum fá rétt verð og gott verð fyrir orkuna okkar. Þess vegna var mikilvægt að finna að Landsvirkjun fær mikinn stuðning í gegnum fyrsta og annan orkupakkann í þá veru að vera með sterkari samningsstöðu gagnvart stórfyrirtækjum. Þess vegna fannst mér miður að finna það að bæði verkalýðshreyfingin og Orkan okkar eru ekki sammála þeim sjónarmiðum að skerpa eftirlitið gagnvart stórfyrirtækjum. Þetta eru nákvæmlega sömu sjónarmið, af því að áðan var talað um það af flutningsmanni minni hluta að ESB væri að auka völdin — ESB er að skerpa reglur.

Innri markaðurinn skiptir öllu fyrir ESB, að þeir hagsmunir, það sem innri markaðnum býður upp á, skili sér í vasa neytenda. Það er algjört lykilatriði og það er eitthvað verulega bogið og brogað við þau sjónarmið, þá tortryggni gagnvart því að aðhald gagnvart ekki síst stórfyrirtækjum sé hættulegt samfélaginu. Þetta eru nákvæmlega sömu sjónarmið og þegar stórfyrirtækin, stóru símafyrirtækin, mótmæltu því hástöfum á sínum tíma að ESB setti fram skýrar reglur, ekki síst í þágu neytenda, um að símafyrirtæki gætu ekki komið hér valsandi og látið neytendur standa uppi með himinháa símreikninga ef þeir leyfðu sér að fara yfir landamæri. Við þekkjum það, muna að slökkva á öllu, passa að við séum ekki tekin í bólinu af erlendu símafyrirtækjunum. Þetta reyndi ESB að koma skikki á.

Það er það nákvæmlega sama með raforkuna. Við, íslenska þjóðin viljum fá rétt verð fyrir þá auðlind, orkuna. Mér finnst það miður að menn í dag, á 21. öldinni, árið 2019, skuli halda á lofti svona sjónarmiðum.

Nú vil ég segja: Orkupakkinn þýðir ekki að skyldur séu lagðar á að leggja sæstreng. Hann hefur enga þýðingu varðandi uppskiptingu og einkavæðingu eða eignarhald í íslenskum fyrirtækjum. Hann hefur engin áhrif á forræði okkar Íslendinga yfir orkuauðlindunum. Þriðji orkupakkinn fjallar ekkert um það. Við skulum bara hafa það á hreinu. Þeir sem ýja að því skulu gera betur grein fyrir máli sínu. Orkupakkinn er, eins og fram kom í málum í máli Landsvirkjunar, í máli Samtaka fyrirtækja í atvinnulífinu, Samkeppniseftirlitsins, í rauninni að hnykkja enn frekar á því sem var í fyrsta og öðrum orkupakkanum: Um samkeppnismál, um neytendavernd, um að eigendaaðskilnaður flutningsfyrirtækja væri til staðar, en þar Ísland fékk undanþágu, og ýta undir sjálfstæði raforkueftirlits.

Við skulum heldur ekki gleyma því að það eru mikil tengsl milli þriðja orkupakkans og umhverfisstefnu ESB. Umhverfisstefna ESB leggur mjög ríka áherslu á endurnýjanlega orku. Við þurfum að sameinast með Evrópu og berjast fyrir því að við tökum rétt skref þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Hluti af því er að taka þátt í þriðja orkupakkanum. Það er hægt að fara yfir svo margt í þessu.

Það sem meginmáli skiptir er að utanríkismálanefnd er búin að fara gaumgæfilega yfir alla þætti, allar þær athugasemdir sem settar hafa verið fram. Ég virði þær, ég undirstrika það. Það er engin hætta sem felst í því fyrir íslenskt samfélag að innleiða þriðja orkupakkann. Miklu heldur felst hætta í því að rugga bátnum, eins og menn hafa verið að reyna að gera á umliðnum vikum. Við eigum að innleiða þriðja orkupakkann í þágu neytendaverndar, í þágu gegnsæis og þess að við verðum fullir þátttakendur í þeim mikilvæga samningi sem EES-samningurinn er.