149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, það eru auðvitað réttmætar vangaveltur. Það er líka rétt að draga fram að það skiptir máli að fyrirtæki í okkar eigu, Landsvirkjun og önnur fyrirtæki í opinberri eigu, nái farsælum samningum við stórnotendur. Það skiptir gríðarlega miklu máli. En það má ekki vera eins og það var, og það kom augljóslega fram hjá Landsvirkjun, að hafa ekki bestu fáanleg tæki til að ná fram góðum samningum og að Landsvirkjun, fyrirtæki okkar, sé sett í verri stöðu.

Breytingin frá 2003 sem var leidd í lög með fyrsta orkupakkann og setti Landsvirkjun undir lög um ríkisstyrki gerði það m.a. að verkum að allir samningar sem Landsvirkjun gerir, sérstaklega við stórnotendur, fara í rannsókn hjá ESA, eftirlitsstofnuninni. Það er því þrýst á það líka utan frá að fyrirtækið Landsvirkjun starfi á samkeppnisforsendum. En áður fyrr var það þannig, það kom fram líka, að leitað var til stjórnmálamanna og reynt að skapa þrýsting þar í gegn eins og ég gat um áðan. Það getur vel verið að það hafi verið réttmætt þá, en við erum ekki þannig í stjórnmálum lengur. Það var ekkert gagnsæi þegar þrýstingurinn kom í gegnum stjórnmál og menn vildu hafa þetta frekar leynt.

Þess vegna er ég algjörlega miður mín yfir því að heyra þennan málflutning, að menn efist um að auknar kröfur um gagnsæi nýtist íslensku þjóðinni. Að sjálfsögðu hjálpar það íslensku þjóðinni. Hluti af orkupakka eitt, tvö og þrjú, sem m.a. Framsóknarflokkurinn á mikinn heiður af, mjög mikil framsýni af hálfu Valgerðar Sverrisdóttur og fleiri, var að þeir tryggja okkur betra verð. Við fáum meiri arð í ríkiskassann. Ég hefði haldið að það væri fagnaðarefni en ekki eitthvað sem við ættum að gera tortryggilegt.