149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar. Mér hefur þótt þær margar betri hjá henni, svo ég sé alveg heiðarlegur með það og kannski sérstaklega vegna þess hvaða tónn var gegnumgangandi í gegnum ræðuna. Það var af miklu meira að taka en ég punktaði hjá mér af handahófi; að hér svifi yfir vötnum bannonismi, andstæðingarnir hlustuðu ekki á svör, stopp við bullinu, menn ættu ekki að vera að spila með hagsmuni og framtíð ungs fólks.

Ég veit það ekki. Er þetta ekki dálítið … (ÞKG: Ég er alveg brjáluð núna.) Alveg brjáluð, sko. Síðan var haldið áfram og varað við því að við mættum ekki kalla úlfur, úlfur. Þá er væntanlega verið að vísa í heimild okkar til að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar, ef ég skildi hv. þingmann rétt.

Og þá kemur spurningin: Má ég skilja það svo að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telji sanngjarnt að nálgast það sem svo að við sem höfum efasemdir um málið og innleiðingu þess séum að hrópa úlfur, úlfur með því að vilja vísa því til sameiginlegu EES-nefndarinnar, eitthvað sem hefur aldrei verið gert? Það er ekki eins og þetta sé misnotuð heimild. Mér vitanlega hefur þetta aldrei verið gert. Það vilja auðvitað ýmsir nota það sem sjálfstæð rök í málinu að af því að það hafi ekki verið gert þá megi ekki gera það. En við erum ekki sammála því frekar en svo margir aðrir.

Ég vil bara gera athugasemd við þetta og vil eiginlega byrja á að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið hana rétt. Er hún virkilega að líkja þessu við söguna úlfur, úlfur sem við þekkjum öll, þ.e. það sjónarmið okkar í Miðflokknum að vilja vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar?