149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:50]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Við Íslendingar, þegar við vísum máli og ef við vísum máli, sem hefur aldrei verið gert, þá vil ég að það verði gert í máli sem raunverulega skiptir okkur miklu, er ógn við eitthvað sem við getum talað um; raforkuöryggi, sjálfstæði landsins o.s.frv. Það er ekki svo í þessu máli. Carl Baudenbacher fór ágætlega yfir það á fundi sem var í utanríkismálanefnd, reyndar mættu ekki allir flokkar. Þar fór hann ágætlega yfir það að þetta er ekki þannig mál að við eigum að vísa því til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Mér finnst frekar leiðinlegt að hafa hlustað á það, ekki reyndar í máli hv. þingmanns, en ég hef skynjað það í viðtölum og á nefndarfundum að það er allt að því verið að gera lítið úr því sem Baudenbacher segir, hann sé bara orðinn pólitískur sérfræðingur. Þetta er maðurinn sem ég hefði haldið að ekki síst Miðflokkurinn myndi virða, sem samdi dómsorðið í Icesave. Þetta er maður sem menn ættu að bera einhverja virðingu fyrir á þeim bænum.

Mér finnst það hvimleitt að þegar hann kemur og bendir á hið augljósa að þetta er ekki málið til að fara þá leið, þó að þetta sé tæk leið þá eru allir aðrir nema Stefán Már og Friðrik sem segja: Hin leiðin er skynsamlegri. Hin leiðin er rétt. En engar fara gegn stjórnarskránni.

Það er líka hvimleitt, og ekki bara með Baudenbacher, að reynt var að finna að því hvernig hann setti mál sitt fram. Mér finnst líka leitt að hafa hlustað á það tvisvar hér fyrr í dag að verið var að hnýta í Björn Bjarnason. Ég og hann erum ekkert endilega á sömu pólitísku skoðunum, ekki varðandi Evrópusambandið, en hann er einn allra færasti sérfræðingur sem við Íslendingar eigum og fyrrverandi stjórnmálamaður sem þekkir utanríkismálin, öryggis- og varnarmálin. En af því að hann kemur með óþægilega skoðun í þessu máli þá er allt í einu verið að tala niður til hans. Berum virðingu (Forseti hringir.) fyrir því fólki sem hefur þekkingu og reynslu og verðmæt sjónarmið fram að færa í þessu mikilvæga máli. (Gripið fram í.)