149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er eflaust þannig að við séum að einhverju marki að hlusta hvort á sínar ræðurnar, því að það sem hv. þingmaður fór í gegnum lýsti því svo ágætlega hvernig það berst mér til eyrna hvernig stuðningsmenn þessa máls tala til þeirra sem hafa efasemdir. Ég ætla ekki, svo forseti skammi mig ekki, að segja að við séum allir taldir fífl, vitleysingar og óalandi og óferjandi, en því fer ansi nærri. Við afgreiddum mál í gær þar sem tekist var býsna hart á, menn og konur, sem þingmenn virtust telja forsvaranlegt að færa dálítið línuna hvað það varðar að setja fram skoðanir sínar og skoðanir á andstæðingum. Það sama á við í þessu máli í dag, alla vega af því sem ég hef hlustað á hingað til, tautið úti í sal og hlátrasköllin og blammeringarnar eru þeirrar gerðar að mér líst ekkert sérstaklega vel á framhaldið, en þar hallast alveg örugglega ekki á stuðningsmenn.

En það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann í seinna andsvari mínu er hvaða áhrif, að hennar mati, það hafi helst af samþykkt þriðja orkupakkans, frá samþykkt til lagningar sæstrengs? Eru það bara eftirlits- og neytendamálin? Eða er eitthvað annað sem hv. þingmaður sér fyrir sér að breytist á grundvelli innleiðingar pakkans frá þeim tímapunkti, frá samþykkt til lagningar sæstrengs? Því að við höfum auðvitað langmest verið að tala um í rauninni tímapunktinn frá lagningu sæstrengs og áfram.