149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:55]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það breytir ekki neinu, ekki frekar en það breytti árið 1961 þegar menn byrjuðu að ræða lagningu sæstrengs. Við höfum þetta allt í okkar höndum. Það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem segir að við þurfum að fara að hegða okkur eitthvað öðruvísi. Þetta er bara sjálfstæð íslensk ákvörðun. Ég ætla rétt að vona að við berum gæfu til þess, þegar þar að kemur, að fara í kalt hagsmunamat um hvernig hagsmunum okkar er best borgið. (BergÓ: … sæstrengs. Hvað gerist í framhaldinu? Eru einhver önnur áform?) Nei, það er náttúrlega fyrst og fremst neytendaverndin, það er eftirlitið, raforkuöryggið og það eru samkeppnissjónarmið. Það er verið að hnykkja á þeim. Þetta eru stór mál.

En eins og ég gat um áðan var strax byrjað að ræða og innleiða þetta í fyrsta og öðrum orkupakka. Af reynslunni erum við að sjá að samkeppnishlutinn er að skila lægra verði, samkeppni sem var innleidd á sínum tíma í gegnum framleiðsluna, en á flutnings- og dreifileiðunum er ekki nægileg samkeppni. Það er verið að reyna að ýta við henni enn frekar af því að við sjáum þessa sprota myndast og við megum ekki setja eitthvert pottlok ofan á þá samkeppni, sem er sem betur fer byrjuð að þróast á íslenskum markaði.

En hv. þingmaður kom líka inn á það að ekki mætti í rauninni mótmæla þessum rangfærslum. Ég undirstrika það, ég vona að ég sé ekki að móðga neinn, en ég er bara svo fegin að með þessu máli er fólk, stjórnmálafólk, byrjað að rísa upp og segja: Nei, hingað og ekki lengra.

Förum yfir þetta kerfisbundið, staðreyndabundið, staðreyndamiðað. Á þeim forsendum er verið að stoppa bullið.

Ég hvet líka alla stjórnmálamenn til að hugsa um hverjir fóðri rangfærslur. Það getur vel verið að fólki hérna inni komi ekkert við hverjir auglýsa í blöðum og á hvaða forsendum. En hvaða skilaboðum er verið að miðla út? Hvaða tónn er sleginn? Þar liggur svo mikil ábyrgð hjá öllu (Forseti hringir.) stjórnmálafólki. Þá ábyrgð verðum við að taka alvarlega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)