149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:57]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það hefur verið mikil umræða um þriðja orkupakkann í samfélaginu, á þinginu, í utanríkismálanefnd og úti um allt. Þetta hefur verið svolítið ríkjandi í umræðunni og sem betur fer hefur komið fjöldinn allur af álitum, umsögnum, viðhorfum og gestum til okkar í nefndinni sem allt hefur komið að miklu gagni. Ég verð reyndar að hrósa formanni utanríkismálanefndar fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að opna fundina í þessari umræðu vegna þess að það, held ég, hjálpaði líka umræðunni úti í samfélaginu. Þetta var til fyrirmyndar og ég mundi leggja til að þetta yrði gert að venju, að fundir væru að jafnaði opnir. (HHG: Heyr, heyr.)

En að efni málsins. Þriðji orkupakkinn snýst fyrst og fremst um að bæta úr vanköntum á samkeppni og eftirliti, bæta neytendavernd og afhendingaröryggi raforku. Þetta er hér um bil allt og sumt. Ástæðan fyrir því að þetta var þróað á sínum tíma var að Evrópusambandið fer alltaf, í kjölfar innleiðingar á löggjöf, í rannsókn á áhrifum af lagasetningunni og rannsóknin sýndi að áhrifin af fyrsta og öðrum orkupakka höfðu ekki skilað nógu mikilli neytendavernd. Það voru enn þá stórir aðilar á evrópskum raforkumarkaði sem voru lítið að keppa sín á milli. Þeir fóru þá í að búa til þriðja orkupakkann, ekki til þess að reyna að hafa orkuauðlindir af Íslendingum heldur miklu frekar til að hlúa að sínum innri markaði og þrengja að einokunaraðilum á meginlandi Evrópu, þessum stóru aðilum. Með því voru sett markmið um að tryggja afhendingaröryggi, að auðvelda neytendum að flytja milli söluaðila, sem við getum í dag — það eru átta fyrirtæki í framleiðslu á raforku á Íslandi og við getum valið á milli þeirra — en líka að lækka verð til neytenda og takmarka lárétta samþættingu. Það eru allt mjög góð markmið.

Hvort markmiðunum sé endilega náð að fullu með þriðja orkupakka á eftir að koma betur í ljós en þau gögn sem við þó höfum benda til þess. Gögn frá meginlandi Evrópu lofa góðu. Þrátt fyrir að auðvitað megi líklega gera enn betur.

En ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að svara einstökum rangfærslum sem hafa komið fram í umræðunni, enda er búið að hrekja þær margsinnis og þær verða hraktar aftur komi þær aftur fram í þessari umræðu, sem þær hafa reyndar gert nokkrum sinnum. Enn fremur rakti ég gagnrýnina sem kom fram í ræðu minni í fyrri umræðu um þetta mál og ég vísa bara í hana. En samt er ástæða til að undirstrika enn einu sinni að þetta mál gengur ekki á nokkurn hátt gegn stjórnarskránni. Það er samdóma álit allra sérfræðinga sem hafa farið í þetta mál.

Þess má líka geta að við meðferð þessa máls fór ég mjög vandlega yfir rök andstæðinganna í málinu, ein í einu, mjög vandlega, og bar þau rök saman við staðreyndir málsins með hliðsjón af bæði texta tilskipana og reglugerða og áliti sérfræðinga. Þetta gerði ég bæði vegna þess að það er hlutverk okkar þingmanna að hlusta á öll rök en ekki síður vegna þess að þótt ég hafi frekar verið á því að þetta væri hið besta mál í upphafi fannst mér eðlilegt og gott að við létum gagnrýnina njóta vafans — þangað til að vafinn er uppurinn. Og hann er uppurinn.

Herra forseti. Það er búið að greiða úr öllum vafaefnum um þetta mál með góðri vinnslu. Ég ætla að nota hluta af tíma mínum til að ræða frekar um EES-samstarfið og ferlið, vegna þess að í gegnum ýmis samtöl sem ég átti við fólk úti í samfélaginu, einkum andstæðinga þriðja orkupakkans, hefur komið betur og betur í ljós að hluti andstöðunnar byggist á tortryggni gagnvart Evrópusambandinu, tortryggni gagnvart EES-samningnum, tortryggni gagnvart íslenskum stjórnvöldum, sérstaklega kannski einstökum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, og tortryggni gagnvart Alþingi, sem ég held að Alþingi hafi því miður áunnið sér að einhverju leyti. Það er erfitt að eiga uppbyggilegar pólitískar umræður þegar allt er gegnsýrt af tortryggni. En eins og ég segi er hluti af tortryggninni vissulega réttlætanlegur. Ég tók líka eftir því að þegar ég útskýri fyrir fólki með hvaða hætti ótal aðilar fá langan tíma til að stilla upp hagsmunum, og reyna að koma til móts hver við annan í umræðunni, slappaði fólk svolítið af.

Byrjum á grunninum: Hvernig verður EES-mál til? Í fyrsta lagi er pakki ekkert annað en safn af EES-gerðum, tilskipunum og reglugerðum. Þær geta verið ein eða fleiri. Það sem gerist er að yfirleitt taka ráð Evrópusambandsins, sem eru þjóðhöfðingjar allra Evrópuríkja, ákvörðun um að það eigi að vinna einhver mál og vísa því til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem er í raun ákveðin útnefnd stoðdeild, sem þróar tillögu að löggjöf og vísar henni til Evrópuþingsins sem vinnur málið og gerir einhverjar breytingar á málinu, reynir að bæta það. Í gegnum allt þetta ferli koma alls konar hagsmunaaðilar að málinu. Ef Evrópuþingið hafnar málinu er það bara búið. En ef Evrópuþingið samþykkir málið fer það aftur til ráðs Evrópusambandsins, þ.e. allra þjóðhöfðingja landanna, forsætisráðherra eða forseta eftir atvikum, sem ýmist hafna málinu, og þá er það bara búið, eða samþykkja málið, og þá er því vísað til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem annast framkvæmdina.

Þetta ferli er mjög mikilvægt en þetta er bara byrjunin vegna þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þarf síðan, í þeim tilfellum þar sem málið á erindi við EES-samninginn, að leggja til að málið verði tekið upp í EES-samninginn. Þá fer það til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hefur viðræður um upptöku og það er mikið ferli á bak við það. Stundum leiðir það ferli af sér ýmiss konar aðlaganir þar sem Ísland eða Noregur eða Liechtenstein segir: Við getum ekki gert þetta með þessu móti. Við óskum eftir því að þetta verði aðlagað, að tekið verði tillit til okkar séraðstæðna. Eftir að búið er að ræða aðlaganir að einhverju leyti fer það mál í gegnum sameiginlegu EES-nefndina, það fer til ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin kemur með tillögu hingað inn þar sem beðið er um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Það er að vísu ekki alltaf nauðsyn á því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara en það er oft gert — og alltaf ef það er nokkur minnsti stjórnskipulegur vafi, ef nokkur minnsti vafi leikur á því að Alþingi geti haft eitthvað út á málið að setja; og þetta er gert á grundvelli 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Síðan kemur inn þingsályktunartillaga — tillaga, nota bene. Þetta er tillaga sem þingið ákveður að samþykkja eða hafna. Þingið vinnur það mál og samþykkir eða hafnar því máli og sömuleiðis einhverjar útfærslur í gegnum frumvörp. Þeim verður einmitt hafnað eða þær samþykktar. Það sem upp úr stendur er að í 25 ára sögu EES-samningsins hefur aldrei komið til þess að þingsályktunartillögu um afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara hafi verið hafnað. Þetta er mjög mikilvægur punktur vegna þess að það þýðir að 5. mgr. 102. gr. EES-samningsins, eins og ég ræddi við hv. þm. Ingu Sæland í fyrri umr. málsins, er óskrifað blað, við vitum ekki nákvæmlega með hvaða hætti það mun raungerast ef við færum þá leið.

En allt þetta sem ég var að segja er auðvitað ákveðin einföldun, ekki síst að því leyti sem svona samantekt felur svolítið þann gríðarlega fjölda einstaklinga, sérfræðinga, hagsmunaaðila, kjörinna fulltrúa í öllum Evrópuríkjum, öllum EES-löndum og aðra sem koma að hverju einasta skrefi í svona málum og það hvernig þetta ferli tekur mörg ár. Þetta felur líka hversu ótrúlega mörg tækifæri eru fyrir Ísland til að koma inn í og koma á framfæri sínum eigin athugasemdum við ferlið, sem er gert í gegnum sendiráð okkar í Brussel, sem er gert í gegnum sameiginlegu EES-nefndina og er gert hér á Alþingi.

Nú gæti einhver spurt: Af hverju er ég að reifa þetta ferli í staðinn fyrir að ræða um þriðja orkupakkann? Svarið er í raun einfalt: Þriðji orkupakkinn var í öllum efnisatriðum útdræddur í utanríkismálanefnd og niðurstaða meiri hluta nefndarinnar er í takti við raunveruleikann. Það er þannig. Við munum auðvitað ræða meira um efnisatriðin í síðari umræðu en mér finnst nóg hafa komið fram og það er ástæðan fyrir því að ég studdi álit meiri hlutans. Þar var öllum mótrökunum hnekkt en jafnframt voru færð góð rök fyrir pakkanum á hans eigin forsendum.

Því miður hafa umræður um þriðja orkupakkann í síðari umræðu ekki að öllu leyti byggt á staðreyndum. Við höfum því miður heyrt margar rangfærslur, einkum frá Miðflokknum. Við höfum heyrt formann Miðflokksins komast í mótsögn við sjálfan sig og tala um að markaðsvæðing eigi að eiga sér stað en á sama tíma eigi að koma kommúnísk yfirstjórn yfir útdeilingu á raforku á einhverju föstu verði. Markaðsvæðing og kommúnísk útdeiling á raforkuauðlindum eru ekki möguleg samtímis. Í raunveruleikanum verður Miðflokkurinn að fara að ákveða sig hvort heldur er. Það er ekki hægt að velja bæði.

Það er ástæða til að taka fram í þessu samhengi að til er ákveðin gerð óformlegrar rökvillu sem er gjarnan kölluð að eitra brunninn. Hún felst í því að leggja fram óviðkomandi upplýsingar um málefni í ákveðnu samhengi, oft rangar, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að upplýst umræða geti átt sér stað. Því miður hefur brunnurinn verið ansi mikið eitraður í þessu máli og það er gríðarlega erfitt að koma réttum upplýsingum að. Við sjáum röksemdafærslur frá ýmsum sem eru bara ekki í takti við raunveruleikann og sem tekur ekki einu sinni mikinn tíma að hnekkja. En það sem er verra er að við sjáum oft röksemdafærslur sem eru í grunninn algjörlega réttar. Ég ætla að taka eitt dæmi sem er tekið úr röksemdafærslum á vefsíðu Orkunnar okkar. Fyrst röksemdafærsla þeirra er, með leyfi forseta:

„Ódýr og örugg raforka er undirstaða góðra lífskjara í landinu Því er afar mikilvægt að allar ákvarðanir sem teknar eru í raforkumálum Íslands þjóni hagsmunum fólksins í landinu og komandi kynslóða.“

Það er ekkert rangt við þessa fullyrðingu. Ekkert. En hér eru heldur engin rök gegn þriðja orkupakkanum, ekki nein. Það sem er verið að gera hér er að gefa í skyn að þriðji orkupakkinn leiði af sér verðhækkanir án þess að færð séu fyrir því rök. Einnig er umræðunni stillt upp þannig að það er þeirra sem eru fylgjandi pakkanum að færa rök fyrir því hvers vegna verð muni ekki hækka. Reyndar er því tiltekna atriði auðsvarað. Við getum horft til nágrannalandanna. Við getum horft til landa eins og Noregs en því er haldið fram að þar hafi verð hækkað mikið við tilkomu sæstrengs. En ef maður skoðar meðalverðið á mörkuðum — og vissulega segi ég mörkuðum — undanfarin ár, viti menn, hefur það lækkað að meðaltali. Raforkuverðið hefur lækkað.

En þegar umræður hafa yfirgefið hugarheim staðreyndanna þá verðum við auðvitað að spyrja okkur og skoða hvað búi að baki. Hvort er tilfellið að hv. þingmenn segi hluti sem þeir vita að eru ósannir eða að þeir trúi virkilega þessum ósannindum, þrátt fyrir að þau hafi margsinnis verið hrakin? Og hvort ætli sé verra? Ég ætla ekki að reyna að svara þessu, þetta er kannski fullheimspekileg spurning fyrir þriðjudagskvöld. En eini hugsanlegi í tilgangurinn sem ég sé, með því að fara þá leið að hunsa rök, að hunsa staðreyndir sem eru sannanlegar, sem eru réttar, að hunsa réttu rökin, m.a. með því að mæta ekki á fundi og láta eins og það sé einhvern veginn fullkomlega eðlilegt að taka ekki þátt í þeirri umræðu — eini tilgangurinn sem ég fæ séð með því er að ala á þeirri tortryggni sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar.

Þess vegna hreinlega rakti ég ferlið, þ.e. ferli þess hvernig mál frá Evrópusambandinu verður að EES-gerð og verður að íslenskum lögum. Ég rakti það í þeirri von að betri skilningur á því hvernig við Íslendingar tryggjum hagsmuni okkar gagnvart EES og á grundvelli EES-samningsins geti orðið til þess að reyna að færa tortryggnina burt frá Evrópska efnahagssvæðinu, þeim góða samningi sem hefur í raun margfaldað lífskjör okkar hér á Íslandi, sem á ekki þá tortryggni skilið — og færa tortryggnina þá kannski yfir til þeirra sem halda á lofti staðleysum, þar sem tortryggnin ætti helst heima.

Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessi mál hér og nú vegna þess að ég geri ráð fyrir því að við munum, alla vega í kvöld og jafnvel eitthvað á morgun, ræða fram og til baka hin ýmsu atriði. En ég ætla að reyna samt, í þeim tilfellum þar sem fólk hefur einhverjar raunverulegar athugasemdir fram að færa, að hlusta á þær, taka mark á þeim og reyna að svara þeim ef þær eru rangar, sem þær hafa verið í öllum tilfellum fram að þessu.

Ef ég heyrði ein mótrök gegn þriðja orkupakkanum sem héldu vatni væri það stórkostlega áhugavert.