149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:13]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir góða ræðu. Við erum greinilega sammála um hversu skaðlegar rangar upplýsingar geta verið, ekki bara fyrir traust á Alþingi heldur einnig hreinlega fyrir hagsmuni þjóðarinnar og hvert við stefnum til lengri tíma.

Í því samhengi var ég einmitt að ljúka við að lesa minnihlutaálit utanríkismálanefndar sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mælti fyrir fyrr í dag. Ég held að ég hafi sjaldan eða aldrei lesið álit sem hefur að geyma jafn margar og alvarlegar rangfærslur. Mér þykir þetta ekki boðlegt og það er ekki gott að formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sé ekki hér í salnum að fylgjast með umræðunni, hann er e.t.v. að gera það einhvers staðar annars staðar, til þess að svara frekar fyrir þetta. Þetta er ekki boðlegt, hv. þm. Smári McCarthy. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hafi lesið þetta minnihlutaálit. Við skulum ræða það

EES-samningurinn? Ég er sammála þingmanninum, hann er mikilvægur. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki sammála mér varðandi þær upplýsingar sem við fengum í hv. utanríkismálanefnd um að höfnun á þessu stigi máls væri ekki í samræmi við þau vinnubrögð og það samkomulag sem gildir um starfsemi og samstarf, bæði EFTA-ríkjanna og ríkja sem eiga aðild að EES-samningnum.

Svo myndi ég vilja í næsta andsvari ræða frekar við þingmanninn um ferlið og þau fylgiskjöl sem við höfum fengið í tengslum við þriðja orkupakkann um ferli málsins og aðkomu Alþingis að málinu á þeim níu árum sem það hefur verið til umfjöllunar.