149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:17]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir svörin. Það er akkúrat þetta: Í álitinu er svo víða eitthvað gefið í skyn. Ég vitna í blaðsíðu tvö í áliti minni hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„… dreifingu orku sem sambandið skilgreinir líkt og hverja aðra vöru.“

Og svo ég haldi áfram:

„… og taka þannig þátt í að gera orkuna að hverri annarri verslunarvöru.“

Þetta er rosalega furðulegt, sérstaklega í ljósi þess að EES-samningurinn byggist á fjórfrelsinu og orka, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef séð, hefur verið skilgreind sem vara alla tíð í þeim samningi. Að tala um orku sem hverja aðra vöru og tala í sérstökum kafla um markaðsvæðingu orkunnar? Það hefur verið rætt ítrekað í þingsal að sú þróun átti sér stað fyrir mörgum árum síðan.

Svo er ítrekað, mörgum, mörgum sinnum, haldið fram að innleiðing á orkupakka þrjú sé brot á stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Við í hv. utanríkismálanefnd höfum rannsakað það (Forseti hringir.) og komið hefur fram að svo er ekki. Það er enginn ágreiningur þar um.