149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:18]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur. Það er merkilegt að þegar verið er að segja að þetta samræmist ekki stjórnarskrá hefur aldrei verið vísað í nákvæmlega hverju í stjórnarskránni það samræmist ekki. Er það 2. gr.? Er það 21. gr.? Það er ekki hægt að sjá. Mér sýnist einmitt á 21. gr. að Alþingi megi taka svona ákvarðanir, að það sé okkur fullkomlega heimilt. 2. gr. kemur eiginlega ekki einu sinni sögu.

Ef það er raunverulegt stjórnarskrárlegt vafaatriði, útskýrið það þá á lögfræðilegum grundvelli. Það er algjört grundvallaratriði.

Og svo varðandi spurninguna um orku. Er þetta vara? Ja, 24. gr. EES-samningsins segir að það sé sérstaklega fjallað um orku í IV. viðauka. Sú grein hefur ekkert breyst síðan 1994, jafnvel. En (Forseti hringir.) þar að auki vitum við að fólk hefur borgað fyrir rafmagn frá því að rafmagn var fyrst leitt í hús. (Forseti hringir.) Það hefur alltaf verið vara frá því að við fórum að geta nýtt það.