149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:20]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir mjög svo yfirgripsmikla ræðu þar sem hann fór vítt og breitt yfir sviðið og kom inn á það sem maður getur kallað regluverk og hvernig hlutirnir virka.

Við erum að tala um neytendavernd og samkeppni og afhendingu raforku, að þetta gangi ekki gegn stjórnarskránni, það sé sem sagt allt öruggt. Rökin þarna — ég vil öllu heldur segja skoðanir, mér finnst hv. þingmaður rugla þessu svolítið saman: Hvað eru rök og hvað eru skoðanir?

Ef við erum að ræða rök erum við oft sammála þar sem rök eru byggð á vísindalegum grunni. Skoðanir eru aftur mismunandi og þar erum við ósammála og mér fannst hann vera að færa þær fram í máli sínu.

Spurning mín er: Ef EFTA-dómstóllinn dæmir að Ísland hafi ekki innleitt allt það regluverk sem hér var farið yfir áðan — ef það hefur ekki verið innleitt rétt — hvað þá? Hefur hv. þingmaður vissu fyrir því að dómstóllinn muni komast að annarri niðurstöðu? Erum við ekki á þessum tímapunkti viss um að okkur ber að setja málið á þann stað að við viljum vera viss um að við séum að gera rétt?