149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:24]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt kjarni máls, það eru rökin og það eru skoðanir okkar, t.d. á lagalegum álitaefnum, sem gefa okkur þá að við séum með mismunandi skoðanir byggðar á rökum. Það er svo auðvelt að túlka texta og við getum valið að taka út úr texta það sem hentar okkur hverju sinni. Þannig myndum við okkur skoðun á málinu.

Það sem ég var að velta fyrir mér var t.d. að franska ríkið hefur orðið uppvíst að því að semja bak við tjöldin við ESB um uppskiptingu vatnsaflsorkuvera. Er það eitthvað sem við gætum lent í? Að við séum bara ekki með allt uppi á borðum? Ég er ekki að velta fyrir mér hvort við séum fullkomlega viljandi með einhverja tortryggni heldur er ég bara að velta upp þeirri spurningu hvort allt sé eins og við viljum að það sé — rétt.