149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:27]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ræðu hans og svörin í andsvörum. Mér finnst ágætt að taka umræðuna á þessum heimspekilega grunni. Hvað er verið að segja? Hvað eru rök? Hvað er álit? Er þetta vel ígrundað allt saman? Er óttinn á rökum reistur eða kannski ekki?

Hv. þingmaður er búinn að fullyrða hér að það sé ekkert að óttast, búið sé að svara öllum efasemdum sem fram hafa komið og búið að hrekja í raun og veru allar spurningar sem bundnar eru við ótta. En mig langar enn á ný til að spyrja: Af hverju eru fyrirvararnir enn þá inni í meirihlutanefndarálitinu eftir að nefndin er búin að fá gesti til sín þar sem búið er að hrekja rökin? Enn eru inni fyrirvarar. Önnur þeirra leiða sem tveir af okkar virtustu sérfræðingum hafa lagt til er að vera með fyrirvara. Hin er sú að fara til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Nú hefur sú leið verið valin af meiri hluta nefndarinnar að setja fyrirvara. En af hverju eru þeir settir ef þeir eru óþarfir og meiri hluti nefndarinnar er þess fullviss að þeir séu óþarfir? Mig langar til að fá svolítið skýra afstöðu til þess. Er það ekki kannski ein rótin að því að fólk treystir ekki alveg því sem verið er að leggja fram? Jafnvel meiri hluti nefndarinnar er með fyrirvara á því sem statt og stöðugt er sagt í pontu að þurfi enga fyrirvara við. Nefndarálitið sem er lesið upp hér í dag er skrifað eftir að gestakomum lýkur til nefndarinnar og allir eru orðnir vissir, allir eru orðnir sannfærðir sem málsmetandi eru í málinu, að því að mér skilst. Í dag stendur þá eftir: Af hverju eru fyrirvararnir settir? Af hverju standa þeir enn í nefndarálitinu?