149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:29]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég að hv. þingmaður er flugmaður og ég veit að hann hugsar vel um tækin sín og fer yfir allt þrátt fyrir að flugvirkjar hafi farið vel yfir hlutina fyrir hvert flug. Það er gagnlegt að fara í gegnum tékklista og staðfesta að allt sé með felldu. Það gerir maður ekki vegna þess að maður vantreystir einhverjum heldur vegna þess að það er stundum gott að vera þeim mun öruggari. Sumir eru hræddir við þetta, það er alveg rétt, það er hræðsla í samfélaginu við þetta mál. Og ef, eins og kom fram í meðferð utanríkismálanefndar, það kostar okkur í rauninni ekki neitt að hafa þessa aukafyrirvara, að vera aðeins vissari, þá er bara fínt að við gerum það. Það veldur okkur ekki neinum skaða að setja aukafyrirvara, þvert á móti er þetta til þess að hjálpa fólki sem hefur enn þá áhyggjur til að komast aðeins nær því að hafa engar áhyggjur.

Það er búið að vísa margoft í þetta tiltekna álit þessara manna. En af hverju er ekki horft að sama skapi á álit allra hinna sem sögðu að það þyrfti ekki þessa fyrirvara? Það er mjög eðlilegt að taka íhaldssama nálgun þegar við útfærum svona hluti, að við förum í gegnum okkar forflugstékklista. En þegar það er búið að segja margsinnis og fullt af sérfræðingum búnir að segja að það sé ekki nauðsynlegt, þá er kannski allt í lagi að hafa þessa aukafyrirvara bara til þess að einhverjir séu sáttir, jafnvel þó að við séum fullkomlega örugg og sátt við að hafa þá ekki. Stundum og sérstaklega í máli eins og þessu eru tilfinningarnar búnir að taka svolítið yfir og fólk er pínu hrætt og við viljum kannski ekki að leggja af stað í þetta tiltekna flug án þess að allir séu pollrólegir.