149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:31]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þannig að fyrirvararnir eru inni til að róa fólk en það er engin sérstök ástæða fyrir þeim.

Já, ég hef starfað sem flugmaður og flugstjóri í á þriðja áratug og við notum tékklista vegna þess að við treystum ekki hlutum. Við förum yfir hluti vegna þess að við vitum að það sem hefur aldrei gerst áður getur gerst. Lögmál Murphys.

Þingmaðurinn kemur inn á það að þetta brjóti ekki stjórnarskrána og það verði ekki skaði. En það er sérstaklega tekið fram í álitsgerð títtnefndra fræðimanna að engin heimild er til að taka í lög ákvæði sem fá ekki staðist íslenska stjórnarskrá þó svo að þannig standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn, þ.e. ekki núna, en það verði að gera ráð fyrir því að á þau muni reyna seinna meir. Þess vegna, samkvæmt utanríkisráðherra alla vega, eru þessir fyrirvarar settir inn. Það er verið að reyna að byrgja brunninn (Forseti hringir.) áður en barnið dettur ofan í hann.

Ég verð að segja að mér finnst það skrýtið (Forseti hringir.) ef það er algjör vissa fyrir því, eins og margsinnis hefur komið fram hér, að það reyni ekki á þetta og (Forseti hringir.) það sé búið að fullvissa alla um það í meiri hluta nefndarinnar að það þurfi ekki, þá séu samt settir fyrirvarar inn vegna þess að það fer (Forseti hringir.) í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að gera einhliða fyrirvara við samninginn.

(Forseti (GBr): Enn áréttar forseti við hv. þingmenn að þeir virði tímamörk.)