149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt sem mig langar að segja við þessu. Kannski fyrsta atriðið. Í alþjóðasamskiptum eru samningar mikilvægir, en í lok dags er það sem skiptir máli hvað löndin gera. Það er ekki hægt að snúa upp á höndina á landi í raunveruleikanum nema upp að ákveðnu marki. Ef land gerir einhliða fyrirvara þá er það einhliða fyrirvari sem síðan verður að takast á um á pólitísku stigi milli ríkja. Þannig að þetta má. Þetta er fullkomlega eðlilegt.

Það er líka þannig að hér á Alþingi lifum við svolítið við það að alls konar átök eiga sér stað, kannski innan þingflokka, það eru kannski einhverjir flokkar sem gætu ekki unað sáttir við þetta öðruvísi en að íhaldssamari fyrirvarar væru settir. En það skiptir engu máli. Þeir valda okkur ekki neinum skaða. (Forseti hringir.) Þvert á móti held ég að þeir tryggi okkur það að ef það (Forseti hringir.) verður umræða einhvern sæstreng þá höfum við stjórnskipulegan (Forseti hringir.) varnagla sem er gagnlegur.