149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru til nokkrar kenningar um hvernig eigi að halda rökræður og hvernig maður eigi að mynda sér skoðanir. Ein er sú að maður eigi að velja skoðun og fylgja þeirri skoðun, alveg sama hvað, sama hvað tautar og raular, maður eigi bara að nota þau rök og þær staðreyndir sem henta þeirri tilteknu skoðun og aldrei skipta um skoðun. Aldrei. Síðan er til önnur leið, sem ég aðhyllist persónulega. Hún er sú að skipta um skoðun þegar maður fær staðreyndir sem eru andstæðar fyrri þekkingu.

Þegar hv. þingmaður talaði um álit Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar um þriðja orkupakkann hugsaði ég með mér: Ja, það getur eiginlega ekki verið að hv. þingmaður hafi lesið umsögn þeirra sömu manna frá 10. apríl sl. sem fylgir málinu sem var lagt fram, vegna þess að þá myndi hann ekki segja þessa hluti. En mér til mikilla vonbrigða fór hv. þingmaður að vitna beint upp úr nákvæmlega því skjali, nema að hann valdi út akkúrat það sem var ekki í algjörri og beinni mótsögn við það sem hv. þingmaður hafði komist að niðurstöðu um áður.

Ég ætla að lesa upp úr nefndarálitinu, virðulegi forseti, eftir að hafa ítrekað að þetta er umsögn Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar til utanríkisráðherra um málið sem við erum að ræða. Og ég vitna beint, með leyfi forseta:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá.“

Á ég að lesa þetta aftur, virðulegi forseti? Eða aftur og aftur: Það er enginn lögfræðilegur vafi, ekki smá, ekki oggupoggupínupons. Ekkert. Enginn. Er það þá komið á hreint? Getum við þá haldið áfram með næsta punkt sem er líka talað um þar en hv. þingmaður nefndi ekki, sem varðar gallana? (Forseti hringir.) Það kemur fram líka að þessi leið, hin leiðin, (Forseti hringir.) er ekki heldur gagnslaus á fyrrnefndu … (Forseti hringir.) Hv. þingmaður skautaði fram hjá því. Ég spyr: Af hverju?