149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef það svolítið á tilfinningunni, þegar þetta mál er hér á dagskrá, að maður hafi óvart rataði inn í einhvers konar trúarsamkomu og maður sé, af því að maður er ekki alveg sannfærður eins og hinir, vafagemlingur og í slæmum félagsskap með hinum sem líkt er komið fyrir. Ég verð náttúrlega að una því og sætta mig við að hv. þingmaður sætti sig ekki við og sé ekki ánægður með málflutning minn hér. Ég valdi þá leið að halda mig í ræðu minni sem mest við það álit sem ég útskýrði að ég áliti að hefði sérstakt vægi í málinu og ég geri reyndar meira en það því að ég las upp úr bréfi þeirra ágætu höfunda til utanríkisráðuneytisins. Ég las meira að segja þá setningu sem hv. þingmaður virtist hafa saknað mest. Ég gerði það, herra forseti. Ég er ekki viss um að ég hafi fengið beina spurningu, en ég er ánægður með að hafa fengið svona gullvægt tækifæri til að ræða með hvaða hætti ég nálgaðist þetta viðfangsefni.