149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar maður á orðastað við handhafa sannleikans og þá er kannski ekkert mjög margt að tala um. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að samþykkja þetta mál öðruvísi en að gerðum þessum lagalega fyrirvara. Það er það sem skýrir, geri ég ráð fyrir, ummæli þeirra ágætu höfunda eins og þau birtast í bréfinu tilvitnaða til utanríkisráðuneytisins.

Staðan er þessi: Menn sjá þetta ekki allir sömu augum. Fyrir mér er það ekkert vandamál. Ég hef engan ágreining við það að fólk sé ekki sammála mér að öllu leyti, en þegar menn eru svo vissir í sinni sök sem raun ber vitni að það virðist valda þeim sálarangist að aðrir hafi önnur sjónarmið þá er kannski ekki mikið sem hægt er að gera í því.