149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti farið yfir mjög margt og þarf kannski að fá fleiri tækifæri til að spyrja aðeins út í þetta nefndarálit sem hv. þingmaður styður frá minni hluta utanríkismálanefndar. Fyrst langar mig að spyrja aftur þeirrar spurningar sem ég spurði hv. framsögumann nefndarálitsins hér fyrr í dag, hvar það er í þriðja orkupakkanum sem ESB, eins og stendur í álitinu, með leyfi forseta: „leggur línurnar um verð orkunnar og heimildir til að skipta upp raforkufyrirtækjum.“ Hvar stendur þetta í þriðja orkupakkanum?

Síðan langar mig örlítið að fara inn á sömu slóðir og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Hv. þingmaður vitnað í það bréf sem Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst sendu til að árétta skoðun sín þar sem niðurstaðan er að sú leið sem farin er sé í samræmi við stjórnarskrá. Samt byggist allt nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar á þeirri röksemdafærslu Stefán Más, en þeir komast samt að annarri niðurstöðu en Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst. Hér eru rök Stefáns Más Stefánssonar notuð til að sýna fram á að hann hafi rangt fyrir sér og leiða að annarri niðurstöðu en þeir komast að. Það finnst mér mjög áhugaverður snúningur, verð ég að segja.

Ég spyr tveggja spurninga: Annars vegar um niðurstöðu Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, að þetta sé í samræmi við stjórnarskrá — hvernig fá þeir þá niðurstöðu með sínum röksemdum en hv. þingmenn Miðflokksins ekki? (Forseti hringir.) Og hins vegar: Hvar í þriðja orkupakkanum er talað um heimild til að skipta upp raforkufyrirtækjum?