149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég hefði kannski átt von á því að hv. þingmaður myndi víkja orðum að því sem ég varpaði fram í ræðu minni — fyrst í ljósi þeirra yfirlýsinga sem liggja fyrir í málinu, þ.e. annars vegar hinnar sameiginlegu yfirlýsingar hæstv. utanríkisráðherra, og eftir því sem best verður séð mjög háttsetts embættismanns á vettvangi Evrópusambandsins, og hins vegar sameiginlegrar yfirlýsingar af hálfu EFTA-ríkjanna, sem er gefin á vettvangi hinnar sameiginlegu nefndar fyrir skemmstu. Í ljósi þessarar miklu samstöðu og þessa mikla og góða skilnings á sérstöðu Íslands, af hverju er ekki valið að fara þá leið sem manni virðist að þeir mæli helst með, þeir ágætu höfundar, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson?

Ég vil leyfa mér að ítreka það, herra forseti, að engin lögfræðileg greining hefur farið fram á þjóðréttarlegu gildi lagalega fyrirvarans. Það liggur engin lögfræðileg álitsgerð fyrir um það. Hún liggur ekki fyrir. Það er alveg sama þó að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson geifli sig og hristi höfuðið í þingsal (ATG: … er að reyna að hlusta eftir svarinu sem …) — slík lögfræðileg álitsgerð liggur ekki fyrir. Það er ósköp einfalt, hún liggur ekki fyrir. Og sú leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara styðst ekki við nein ákvæði í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það gerir hins vegar aðalleiðin sem Friðrik Árni og Stefán Már lögðu til.

Það kom reyndar fram á fundi í utanríkismálanefnd að mjög ólíklegt yrði að telja að hald reyndist í hinum lagalega fyrirvara ef á reyndi og notaði (Forseti hringir.) sá ágæti gestur sem þá var, mjög mikils metinn lögfræðingur, orðið „heimabrúk“, „ætlaður til heimabrúks“.