149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður svarar hvorugri spurningunni minni og svo er að sjá að hann sé aðeins á hlaupum undan þessu. Hann beinir spurningu til mín, en það er reyndar ég sem er í andsvari við hv. þingmann. Ég svaraði þeirri spurningu fyrr í dag í umræðunni þegar hann bar hana upp í andsvari við mig. Ég get alveg ítrekað það svar mitt.

En mig langar þó að segja hér að það er ekki þannig, og það er rangt eins og svo margt í áliti minni hluta utanríkismálanefndar, að orkupakkinn feli eitthvað í sér um það að geta skipt upp raforkufyrirtækjum. Það að halda fram svona mörgum staðreyndum sem eru kolrangar í einu minnihlutaáliti er áhugavert. Það var þess vegna sem ég kem í andsvarið hér og spyr þig hvar þið finnið þessar staðreyndir sem eru algjörlega rangar. (Forseti hringir.)

Mig langar því að beina þeirri spurningu aftur til hv. þingmanns þar sem ég hef nú þegar svarað þeim (Forseti hringir.) spurningum sem hann ætlaði að vísa til mín í þessu andsvari sínu.