149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tvennt kemur í hugann þegar hlustað er á ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar. Annars vegar það atriði, sem raunar hefur verið komið inn á hér fyrr í andsvörum, að þrátt fyrir að hv. þingmaður vitni mikið til tiltekins lögfræðiálits virðist hann komast að annarri niðurstöðu um lausn mála en höfundar þess álits. Það vekur líka raunar athygli að hann skuli ekki telja ástæðu til að víkja að álitum annarra fræðimanna sem um þetta hafa fjallað og hljóta einnig að hafa töluvert gildi í þessari umræðu. Þá er ég náttúrlega einkum að hugsa um Davíð Þór Björgvinsson og Skúla Magnússon, sem skiluðu afar vönduðum álitum. Þau hljóta líka að koma til skoðunar þegar við leggjum mat á þau álitamál sem hér eru uppi og eru vel rökstudd og með skýrri niðurstöðu, svo ekki sé nú minnst á önnur og eldri lögfræðiálit sem kannski væri líka ástæða til að fjalla um í þessari umræðu meira en gert hefur verið.

En ég vildi kannski koma með eina beina spurningu til hv. þingmanns. Hún er hvort hann sé ósammála mér og þeim lögfræðilegu fræðimönnum sem um þetta mál hafa fjallað, að það framsal sem gert er ráð fyrir í þriðja orkupakkanum felist eingöngu í því (Forseti hringir.) að Eftirlitsstofnun EFTA geti gripið inn í ef eftirlitsstjórnvöld í mismunandi aðildarríkjum eru ósammála um einhverja niðurstöðu (Forseti hringir.) sem varðar tengingar milli ríkja.