149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég vitnaði reyndar, kannski með óbeinum hætti, til álita þeirra ágætu fræðimanna sem hann nefndi, Davíðs Þórs Björgvinssonar og Skúla Magnússonar. Reyndar vitnaði ég í mjög merkilegt fræðirit eftir Davíð Þór Björgvinsson um Evrópurétt og EES-samninginn. Það mætti kannski að gera meira af því að vitna í þessa ágætu fræðimenn.

Það mætti kannski líka vitna í greinar eftir þessa ágætu fræðimenn í merku afmælisriti sem heitir Fullveldi í 99 ár og er greinasafn sem var gefið út til að heiðra Davíð Þór Björgvinsson í tilefni af 60 ára afmæli hans í fyrra eða hittiðfyrra. Það er áhugavert sem Davíð Þór fjallar um í þessu riti. Hann talar um þessa hluti í samhenginu, svo maður sletti latínu, með leyfi forseta, de jure og de facto.

Það er svo að sjá að þær lögfræðilegu niðurstöður sem liggja fyrir, sérstaklega af hálfu Davíðs og kannski líka Skúla, séu mjög eindregið í kategoríunni de jure. En álitsgerð tvímenninganna sem mest er vitnað til gengur svolítið lengra í þeim skilningi að hún fer út í meiri greiningu á afleiðingum og áhrifum þessara gerða og þá sérstaklega reglugerðar 713. (Forseti hringir.) Þarna er ákveðinn munur sem er kannski ástæða til að vekja athygli á.