149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að gefa hv. þingmanni aftur tækifæri til að koma inn á þá spurningu sem ég nefndi. Við lestur greinargerðanna getur maður ekki dregið aðra ályktun en þá að til afskipta ESA geti einvörðungu komið í þeim tilvikum þegar eftirlitsstjórnvöld í mismunandi ríkjum, þá á Íslandi og í einhverju öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, koma sér ekki saman um niðurstöðu varðandi viðskiptaskilmála sem varða tengingar milli mismunandi ríkja.

Ég spyr að þessu að gefnu tilefni. Þarna er um að ræða, má segja, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson lýsti í fyrri umr. um málið, eitthvað sem jafna má til gerðardóms í ágreiningsmálum tveggja aðila sem standa á sitt hvorum enda kapalsins eða línunnar.

En ég er að velta fyrir mér hvort (Forseti hringir.) hv. þingmaður sé ósammála þessum lögfræðilegu fræðimönnum um að þarna liggi hugsanlegt framsal (Forseti hringir.) til ESA en ekki annars staðar, ekki á öðrum sviðum sem varða orkunýtingu (Forseti hringir.) eða orkustefnu eða ákvarðanir á sviði orkumála.