149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekki taka neitt fast til orða í þessu sambandi. Ég vil bara árétta það og ítreka að orðin sem eru notuð af hálfu tvímenninganna eru eftirfarandi, sem ég leyfi mér að vísa hérna til: Þeir tala um að ákvarðanir ESA geti haft áhrif á það — það kannski skiptir máli. Haft áhrif á ...

Hvar er ég?

Já, geta haft áhrif á „veigamikla þjóðfélagslega hagsmuni“, þ.e. nýtingu á orkuauðlindum.

Sömuleiðis segja þeir að ákvarðanir samkvæmt þessari reglugerð, 713, tækju a.m.k. óbeint til „skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar.“

Svo vil ég bara leyfa mér að segja að mér finnst það svolítið óþægilegt hvernig manni sýnist að þetta tveggja stoða fyrirkomulag sé sniðgengið í þessu máli öllu saman, í ljósi þess að, (Forseti hringir.) svo maður orði það nú bara sem svo, fyrst ég er búinn að missa frá mér tímann, að ESA sé eins og hver önnur skúffa í ACER í þessu móverki eins og það er sett upp.