149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fólk getur haft ákveðið forskot í málflutningi sínum þegar það er með mjög einfaldan málstað, jafnvel þegar sá málstaður byggir á staðreyndavillum og rökvillum. Forskot umfram þá sem þurfa að halda sig við staðreyndir og rök vegna þess að staðreyndir og rök, sér í lagi í EES-málum, geta verið frekar leiðinleg og ekki alveg á hinu dæmigerða mannamáli sem hægt er að tjá auðveldlega í upphrópunum og snjöllum línum sem eru auðskiljanlegar á tilfinningalegum nótum á Facebook eða í fjölmiðlum.

Það þýðir að þegar ofboðslega mikið af rangfærslum ratar hratt út, í upphrópunum, getur verið erfitt að leiðrétta þær, sérstaklega með staðreyndum, því að hljómurinn í staðreyndunum er eitthvað á borð við: „713/2009/EB“ eða „tveggja stoða kerfi“ eða annað því um líkt, eitthvað sem fólk fer strax af geispa yfir. Það er ákveðið vandamál við þetta mál, vegna þess að þetta er jú EES-mál og er í tæknilegri kantinum, sem þýðir að mikið af rangfærslum hafa fengið að vera of mikið á sveimi í umræðunni rosalega lengi. Það hefur reynst erfitt að kveða þær niður.

Mig langar þó líka að segja: Ég skynja í allri umræðu tortryggni gagnvart stjórnvöldum til þess að fara með auðlindir Íslands. Og ég skil þá tortryggni vegna þess að ég deili henni. Ég er sammála. Ég treysti ekki yfirvöldum. Ég treysti ekki Alþingi til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Ég treysti ekki yfirvöldum til að taka réttar ákvarðanir. Ég treysti ekki valdi, ég treysti ekki yfirvaldi, ég treysti ekki löggunni, ég treysti ekki dómurum einu sinni, ég treysti ekki fólki til að fara með vald. Menn gerast ekki mikið tortryggnari en ég.

En það þýðir ekki að maður geti sjálfkrafa sópað öllu af borðinu sem þangað kemur. Maður þarf samt að lesa upplýsingarnar sem maður þarf til að draga ályktanir, þarf samt að hlusta á rökin og hugsa um þau.

En þegar hlutirnir er settir fram í upphrópunum, eins og að útlendingar ætli að taka auðlindirnar okkar, og það orðað á ýmsan veg, mjög gaumgæfilegan og snyrtilegan veg til þess að segja það ekki nákvæmlega tæknilega séð en samt gefa það rosalega mikið í skyn, þá er auðvelt að skilja það í hjartanu og þá þarf ekkert að hugsa um það og þarf ekki að lesa um það.

Þannig lifir áfram ofboðslega mikið af vitleysu sem er drifin áfram af annars rökréttri tortryggni.

Ég held að það sé best þegar farið er efnislega í málið að byrja á því að lýsa því hvernig þessi eftirlitsstofnun ESB á að virka, ACER/ESA. En það held ég að hefði mátt koma fram strax í umræðunni til þess að fólk væri meðvitað um hvað við erum að tala um. Það er búið að lýsa þessu á svo margan mismunandi hátt í samhengi við auðlindir og þess háttar. Við hefðum í raun átt að byrja á að útskýra hvernig þetta er sett upp í hinum rómuðu greinum, 7.–9. gr. í reglugerð 713/2009. Og það er svona: Orkustofnun Íslands, íslenska stofnunin á Íslandi, Orkustofnun, á að setja reglur um tengingar milli landa — ef þær tengingar væru til. Þær eru náttúrlega ekki til og þá þarf augljóslega ekki að setja reglur um þær. Alveg eins og það þarf ekki að mála hús sem eru ekki til. Það er í alvörunni svo einfalt. Orkustofnun á að setja reglur. Svo ef það er tengipunktur við annað ríki þarf sú orkustofnun, íslenska orkustofnunin, á Íslandi, að koma sér saman um reglur við aðra orkustofnun í hinu landinu, segjum Skotlandi eða Bretlandi.

Ef það næst er allt í góðu og þá eru reglur þeirrar orkustofnana við lýði og ESA og ACER koma málinu aldrei nokkurn tímann við. Ef það er ágreiningur á milli þeirra og hann endist í sex mánuði geta þær stofnanir í fyrsta lagi farið fram á frest, sem þær fá til að finna út úr því hvernig þær geti náð saman. Ef það næst ekki grípur ACER-stofnunin inn í í ESB-löndum og ákveður eitthvað í samræmi við markmið bandalagsins, sem eru gegnsæi, neytendavernd og samkeppniseftirlit, sem eru ekki annarlegir hvatar. Það er ekki eins og ACER myndi ákveða: Þá tökum við alla peningana. Eða: Þá ætlum við að taka allar auðlindirnar. Þetta er ekki þannig. ACER sinnir ákveðnu hlutverki, lögbundnu hlutverki sem er skilgreint í reglugerðinni. Hún á að setja reglur og hún á að skikka fólk til að fara eftir reglunum og halda uppi samkeppniseftirliti, neytendavernd og gagnsæi. Það er heili punkturinn með þessu öllu saman.

Það er auðvitað það sem stofnunin gerir, en það er ekki eins og það sé einhver ægileg ógn við Íslendinga. Er það málið? Er krafan sú að Orkustofnun eigi að setja reglur sem eru einhvern veginn þvert á þau góðu gildi? Er það svo ægilegur sjálfstæðismissir Íslands að erlend stofnun segi: Nei, það er ekki gott, þið megið það ekki þegar þið eruð að díla við aðra þjóð?

Í öðru lagi: Er ekki eðlilegt að það sé alþjóðleg stofnun sem sjái um ágreining milli tveggja þjóða? Það er það sem við erum að tala um. Það er alltaf látið í umræðunni eins og ACER eða ESA myndu vera hérna á landinu að vasast í íslenskum málum. Til hvers? Af hverju? Það samrýmist ekki á neinn hátt hlutverki stofnunarinnar samkvæmt reglugerðinni. Það er Orkustofnun á Íslandi sem sér um þetta allt saman. Og það er ekki bara svo að Orkustofnun megi setja reglurnar, samkvæmt 8. gr., hún á að setja reglurnar. Hún er beinlínis skyldug til þess.

Þetta er sem sé valdframsalið. Þetta er hið ægilega valdframsal sem tveir virtir fræðimenn hafa komist að niðurstöðu um að sé ekki vel skilgreint og skýrt afmarkað eða á afmörkuðu sviði, nokkuð sem ég er sjálfur ósammála eftir að hafa kynnt mér málið. En gott og vel, við ætlum að reyna að gera þetta eins öruggt og mögulegt er vegna þess að við viljum ekki brjóta stjórnarskrána okkar, sem okkur þykir öllum vænt um, þótt sum okkar langi reyndar mikið til að breyta ýmsu í henni.

Fyrir utan það eru síðan kæruleiðir og það er mikið gert í reglugerðinni úr sjálfstæði þeirrar kærunefndar. Farið er yfir hvernig slíkt skuli unnið.

En yfir í stjórnarskrána. Það hefur mikið verið talað um hinn meinta stjórnarskrárlega vafa. Þá hefur mikið verið vísað í álit frá Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst og Stefáni Má Stefánssyni. Það er álitið sem er aðallega talað um hérna. Álitið er um orkupakkann áður en þetta mál varð til. Þetta þingmál var ekki til þegar þeir sömdu álit sitt. Þeir skrifuðu álitið fyrst, síðan varð málið til og svo gáfu þeir álit sitt á málinu, á þeirri tilteknu þingsályktunartillögu sem við ræðum í dag.

Ég ætla að endurtaka það sem ég fór yfir í andsvörum við hv. þm. Ólaf Ísleifsson áðan. Það segir í áliti þeirra, með leyfi, virðulegi forseti:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá.“

Það er enginn vafi. Samt koma menn hingað og tönnlast á því að það sé einhver ægilegur vafi sem gert er mikið úr og alltaf með því að vitna í úrelt gögn, sem varða ekki þetta mál heldur orkupakkann áður en málið varð til. Mér finnst það ekki heiðarlegt og ég fór aðeins yfir það áðan, mér finnst það reyndar óþolandi vinnubrögð ef út í það er farið.

Varðandi valdframsalið sem ég lýsti fæ ég ekki betur séð en að það sé frekar vel skilgreint og á afmörkuðu sviði, samanber 7.–9. gr. reglugerðarinnar. Það er skýrt tekið fram hvaða ákvarðanir þetta séu. Þetta eru ákvarðanir sem tilheyra landseftirlitsaðilum, Orkustofnun á Íslandi.

Sökum tímans verð ég eiginlega að drífa mig yfir í næsta atriði, sem er spurningin með sæstrenginn.

Ég tek eftir því í arfavondu nefndaráliti hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að rökstuðningurinn er eiginlega byggður á því að með því að samþykkja þriðja orkupakkann sé kominn sæstrengur. Mikið af rökstuðningnum er rökréttur ef miðað er við að hingað sé kominn sæstrengur. En það er ekki það sem við erum að tala um. Þetta mál snýst ekki um að leggja sæstreng. Það snýst um regluverk, sem snýst vissulega um orkumál en kemur aðeins við sæstreng þegar hann er til. Hann er ekki til. Þar af leiðandi gilda ákvæðin ekki um þann sæstreng, vegna þess að hann er ekki til. Þetta er fyrirvarinn. Þetta er augljóst.

Mér finnst það svo augljóst að ég tel fyrirvarann ekki þurfa. En það er gott og vel ef lögfræðingar benda okkur á að til sé einföld og ókeypis leið til að hafa þetta aðeins öruggara — flott, gerum það þá, en það þarf ekkert meira. Þetta er fínt. Mér finnst að hv. þingmenn Miðflokksins ættu að taka undir að það sé gott, varla vilja þeir missa fyrirvarana, aðra leiðina sem er lögð til í hinu margumtalaða áliti.

En ég ætla líka að leggja fram ákveðna tillögu eða kenningu. Ég held ekki að þetta mál, verði það samþykkt, muni auka líkurnar á því að lagður verði sæstrengur, heldur þvert á móti. Ég held að þegar þriðji orkupakkinn verður innleiddur á Íslandi muni það torvelda lagningu sæstrengs. Ástæðan er þessi: Í dag er hægt að leggja sæstreng, mér er sagt að regluverkið sé þegar til, það þarf bara einhver að vilja gera það. Það kemur í ljós að enginn hefur nægilega mikinn vilja til þess að virkilega fara út í það og leggja það til af einhverri alvöru. Það eru ýmsar hugmyndir uppi og einhver sem vill að einhver annar geri það, að einhver annar taki áhættuna. Einhverjir aðilar tala saman um það, sem hefur verið í gangi mjög lengi, og það er allt í lagi því að það er jú hérna sem það verður ákveðið hvort lagður verður sæstrengur eða ekki — og meðan ég man þá er ég á móti því að leggja sæstreng. Ég vil ekki leggja sæstreng, ég myndi greiða atkvæði gegn því, að svo stöddu alla vega. Sjáum til hvað 20 ár af loftslagsbreytingum hafa að segja um það.

En þegar orkupakkinn verður samþykktur — eða bökkum aðeins. Í þessu máli er fyrirvari vegna stjórnarskrárlegra vafamála. Gott og vel. Það er allt í góðu að þingmenn hafi þann vafa og deili þeim vafa með hinum ágætu fræðimönnum, enda hafa virtir fræðimenn bent á hann. Sá vafi er farinn í burtu með þessu máli út af þeim fyrirvara sem var settur við það. Það er óumdeilt meðal fræðimannanna sjálfra, þótt hv. þingmenn Miðflokksins virðist ekki geta né vilja horfast í augu við þá staðreynd, þá borðleggjandi, bláköldu staðreynd. En ef það kemur tillaga um að leggja sæstreng virkjast þau ákvæði. Þá virkjast ákvæði 7.–9. gr. Þá verður það stjórnarskrárleg spurning. Það er erfiðara, virðulegur forseti, ekki auðveldara.

Og ekki nóg með það. Þegar þetta hefur verið innleitt er þegar komin sú kvöð á Orkustofnun að samræma reglur sínar við orkustofnunina í hinu landinu, væntanlega fyrir fram. Hver ætlar að fara að leggja sæstreng án þess að vita fyrir fram hverjar reglurnar verða um aðgang og því um líkt? Enginn. Auðvitað vill fólk fá þetta á hreint fyrir fram. Það er hluti af ferlinu. Það að þurfa að finna út úr því fyrst, ef einhver með réttu ráði ætlar að byggja þennan meinta sæstreng, þýðir í fyrsta lagi að það er erfiðara, virðulegur forseti.

Í öðru lagi er það komið þegar sæstrengur er lagður. Þá verður enginn ágreiningur og þá fer það aldrei til ESA. Ég held að ef við innleiðum þriðja orkupakkann í dag munum við aldrei heyra múkk frá ESA um þetta mál, aldrei nokkurn tímann, jafnvel þótt við legðum sæstreng, vegna þess að ég held að með því að hafa hann innleiddan fyrir fram verði regluverkið alltaf hluti af því að leggja sæstrenginn. Þessar samningaviðræður milli Orkustofnunar og væntanlega orkustofnunar Bretlands, geri ég ráð fyrir, verða að vera hluti af því að byggja sæstreng. Til hvers ættum við að fara til ESA? Af hverju myndum við byggja stærsta og flóknasta og dýrasta sæstreng mannkynssögunnar og svo bara gleyma að pæla í því hvort Bretarnir séu sammála okkur um „beisik“ hluti eins og aðgang? Að vilja frekar fara með það í eitthvert dómsúrskurðarbrölt hjá alþjóðlegum stofnunum er fráleit pæling. Hver myndi skrifa samning og segja svo: Heyrðu, förum beint til dómara, höfum vafaatriði í samningnum okkar og förum svo bara til dómara og látum þá finna út úr þeim. Það er fráleitt, virðulegi forseti. Það myndi enginn gera.

Þess vegna held ég í fyrsta lagi að þetta torveldi lagningu sæstrengs. Ef það verður lagður sæstrengur held ég að ESA og ACER muni aldrei koma nálægt því. Í þriðja lagi ætla ég að leggja til að ef það verður lagður sæstrengur, sem ég er á móti, sé betra að hafa þetta regluverk en ekki, vegna þess að það er meira gegnsæi, meira samkeppniseftirlit og betri neytendavernd.

Í sambandi við sæstreng er alveg eðlilegt og málefnalegt að líta til kostnaðar neytenda. Mér er eins og mörgum öðrum annt um að rafmagn sé í ódýrari kantinum á Íslandi. Það er reyndar ekki það ódýrasta í Evrópu, það er ódýrara í einhverjum löndum Evrópu, smá dýrara sums staðar, aðeins dýrara annars staðar og miklu dýrara á enn öðrum stöðum. Það rímar í fyrsta lagi ekki mjög vel við kenningar um að ESB handstýri því verði, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði ranglega frá í viðtali nýlega, enda er það ekki þannig sem ESB virkar. Það er þannig sem kommúnisminn virkar. ESB er ekki kommúnistaríki, ef það er ekki á hreinu. Meira um það síðar.

Mér finnst líklegt að kostnaður neytenda hækki nokkuð mikið, alla vega eitthvað, með því að leggja sæstreng til Evrópu af þeirri ástæðu að meiri eftirspurn eftir orkunni kæmi þaðan. Ekkert mál, meiri eftirspurn hækkar verðið, ekki flókin pæling í sjálfu sér. En hérna er ekki lagt til að leggja sæstreng, hér er lagt til að samþykkja orkupakka. Það er þekkt hvaða kostnaður fylgir því og hann hljóðar upp á 49 millj. kr. kostnað fyrir ríkissjóð 2019 og síðan 47 milljónir í tekjur 2020, kemur út meira og minna á sléttu í ríkisfjármálaskilningi.

Ógurlegri upphæðir eru þetta nú ekki. Við tölum sjaldan um lægri upphæðir en þetta þegar við erum að tala um fjárlög, mjög sjaldan. Sú hugmynd að rafmagnskostnaður muni aukast eitthvað út af þessu finnst mér því mjög ótrúverðug. Ég hygg að það yrði hreinlega erfitt að reikna þann kostnað af þeirri einföldu ástæðu að kostnaðurinn á hverja fjölskyldu væri svo lítill, bara sveiflur í rafmagnsnotkun á hverju heimili hljóta að fara langt umfram þá kostnaðaraukningu, ég held að enginn finni fyrir henni. Þetta er ekki stór upphæð.

En það er líka ein af þeim rangfærslum sem hafa fengið að dynja á samfélaginu, að ESB muni einfaldlega ákveða verðið. Þetta er úr lausu lofti gripið. Það er svolítið erfitt að sannfæra fólk um að það sé ekki draugur inni í einhverjum skáp, erfitt að sannfæra barn um að það sé ekki ósýnilegt skrímsli undir rúmi. En þá á maður að athuga það, þá opnar maður skápinn eða lítur undir rúmið og ef maður opnar skápinn eða lítur undir rúmið í þessu tilfelli sér maður að það er einfaldlega ekkert í þessu sem gefur til kynna á neinn hátt að ESB færi að ákveða verðið sameiginlega fyrir alla Evrópu, sem er, eins og hv. þm. Smári McCarthy benti á áðan, í mótsögn við það að markaðsvæða þetta. Annaðhvort er verið að markaðsvæða þetta eða taka upp kommúnisma. Það er ekki hægt að gera hvort tveggja á sama tíma.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þarf í sínu ágæta — reyndar mjög lélega — nefndaráliti að fara að ákveða sig hvort það er. Það getur ekki verið hvort tveggja. Í því er innri mótsögn.

Það er rétt að verið er að markaðsvæða og hugmyndin með markaðsvæðingu er svo að auka samkeppni þannig að neytendur hafi meira val í fullkomnu hagkerfi — sem er ekki til — en samkvæmt tærri kapítalískri kenningu yrði verðið jafnt ef allir hefðu jafn mikið aðgengi og eftirspurnin væri dreifð sem og framleiðslan — á endanum, í fullkomnum heimi. En þannig er raunveruleikinn ekki og þess vegna er ekki sama orkuverð í öllum löndum Evrópusambandsins, vegna þess að það er mislangt í orkuna. Það eru misjafnlega sterkar og góðar línur, þær eru mismargar, það er mismikil eftirspurn á misjöfnum tímum. Þetta hefur áhrif á verðið, eðlilega.

Svo hefur einnig verið talað um einkavæðingu ríkisfyrirtækja og að skipta þeim upp, sem enginn kannast við og enginn getur rökstutt eða bent neitt á um, sem einkennir svolítið málflutning einnar hliðar í málinu.

En ekki nóg með það. Það er ekki aðeins það að öll rökin sem ég hef heyrt gegn málinu séu ofboðslega slæm og byggð algerlega á sandi heldur finnst mér eftir að hafa skoðað málið það vera efnislega gott. Þetta er engin bylting. Það er verið að bæta samkeppniseftirlit, bæta sjálfstæði eftirlitsins hjá Orkustofnun, sem er engin bylting og ekki neitt svakalega stórt mál. En allt í lagi, mér finnst það betra en ekkert. Mér finnst góð hugmynd að hafa alþjóðlega stofnun til að útkljá ágreining milli tveggja þjóðríkja. Í grunninn finnst mér það praktískt. Mér finnst það ekki framsal á valdi, sér í lagi ekki þegar það er vel skilgreint og á afmörkuð sviði eins og þetta er að mínu mati.

Ég ætlaði að fara yfir rangfærslurnar í minnihlutaáliti hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar en mér endist ekki tími til þess. En þegar ég las það í fyrra skiptið taldi ég að hann hefði áhyggjur af stjórnarskrárlegum vafa, sem er enginn. Við skulum vera sammála um það núna og hætta að rífast um þetta. Það er staðreynd. Það er sem sagt rangt að það sé stjórnarskrárlegur vafi, hann er enginn.

Í öðru lagi að ACER væri með yfirþjóðlegt vald. Ég hef farið yfir það. Þetta er líka rangt, nema í mjög þröngum skilningi sem stenst stjórnarskrá algerlega og hvað þá með þessum fyrirvara. Svo gagnrýnir hann að orkan verði gerð að hverri annarri verslunarvöru. Þetta er grýlutal. Af hverju er orka ekki vara? Hvað er að því að orka sé vara? Matur er vara, mjólk og vatn eru vörur. Það þýðir ekki að vondir útlendingar ætli að taka það af einhverjum. Við munum hafa samkeppniseftirlit, gagnsæi og það sem þarf til að markaðurinn virki eins og markaðir eiga að virka. Það er það sem þetta mál snýst um. Það er gott. Þannig á það að vera. Það er allt í lagi að ríkið taki þátt í einhverju slíku, sér í lagi til að tryggja að allir hafi ofan í sig og á, eins og við viljum auðvitað öll.

Einnig stendur að ESB ákveði verðið á orku, ég er búinn að fara yfir það, og að það verði tengsl við ESB á forsendum ESB. Þetta hefur valdið mér heilabrotum alla tíð síðan. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér: Hvað þýðir það að fara í eitthvert viðskiptalegt samband eða (Forseti hringir.) tengjast einhverju landi án þess að gera það á forsendum beggja aðila? Hvað væri það að tengjast Evrópu með jarðstreng (Forseti hringir.) bara á íslenskum forsendum? Ég skil ekki einu sinni hvað er átt við. Kannski er ég vitlaus. Ég læt andsvarendum það eftir að koma fyrir mig vitinu.