149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Nú er ég búinn að hlusta á Helga Hrafn Gunnarsson annars vegar og hv. þm. Smára McCarthy þar á undan fara nokkrum sinnum yfir það að menn verði bara að velja hvort þeir ætli að nálgast málið út frá því að þarna sé um að ræða kommúnisma eða markaðsvæðingu. Þetta fari ekki saman, það sé bara einhver útópía að þetta tvennt fari saman. Ég er svo sem í meginatriðum sammála því en það er einfaldlega þannig að til er þjóð sem við þekkjum ágætlega sem er með 1,4 milljarða íbúa, Kína, sem er akkúrat að reyna þetta daginn út og daginn inn þannig að þetta eru ekki fjarlægara en það. Bara ábending.

Það sem mig langaði að spyrja þingmanninn út í í fyrra andsvari mínu er hvort hann þekki einhver dæmi þess að Evrópusambandið eða stofnanir þess hafi reynt að brjóta upp stórfyrirtæki í orkumálum, hvort það sé svo fjarlægt að um slíkt þekkist engin dæmi eða hvort þingmaðurinn, sem tjáir sig af furðu mikilli trú og vissu, eigin sannfæringu, svo ég orði það varlega, þekki einhver dæmi þess að Evrópusambandið eða stofnanir þess hafi reynt að brjóta upp stórfyrirtæki í orkumálum innan Evrópu.