149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skilst nú að það hafi beinlínis verið eitt af markmiðunum þegar fyrsti orkupakkinn var settur á. Það voru stórir aðilar á markaðnum sem Evrópusambandið vildi brjóta upp til þess að auka samkeppni. Ég veit ekki hvaða aðilar þetta voru. Ég fór ekkert að skoða þetta mikið nánar vegna þess að það er ekkert í þessum þriðja orkupakka sem varðar þetta mál. Það kemur málinu bara ekkert við. Þetta er hluti af þeirri sögu að brjóta upp einokunarsamstæður eins og er gott að gera. Er það ekki? Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki? Ef við erum með risavaxin orkufyrirtæki í Evrópu og fákeppni og viljum fá samkeppni er þá ekki gott að brjóta þau upp? Ég skil þá spurningu eftir handa hv. þingmanni.

Það er alla vega ekkert í þessum orkupakka sem varðar okkur á Íslandi í þeim efnum. Mér skilst á umræðunni um annan orkupakkann að það komi þeim orkupakka meira við en að við höfum fengið undanþágu í því. Sömuleiðis er það orkupakki sem þegar hefur verið innleiddur. Þriðji orkupakkinn er ekki annar orkupakkinn og annar orkupakkinn fer ekkert þótt við höfnum þeim þriðja. Þetta er skástu svörin sem ég get gefið hv. þingmanni um þetta atriði.