149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Bara svo því sé haldið til haga og kannski mest fyrir sjálfan mig þá þarf ég að skoða þessi orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um að orkupakki tvö fari ekki neitt þó að orkupakki þrjú verði ekki samþykktur í samhengi við orð hv. formanns utanríkismálanefndar sem hann lét falla í viðtali um helgina. En það er sennilega rétt að ég reyni ekki að setja það í samhengi hérna heldur geri það hugsanlega betur í ræðu á morgun.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur komið hingað upp alloft, leyfi ég mér að segja. Hann las upp úr bréfi lögmannanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts að enginn lögfræðilegur vafi væri á því að nálgunin stæðist stjórnarskrá. Ég er nú ekki með þetta álit hjá mér, ég gæti græjað það án mikilla vandræða. En er það ekki rétt munað hjá mér að þarna hafi lögmennirnir verið að horfa til þeirrar lausnar sem þeir, með eigin orðalagi, segja að sé hluti af því að fresta álitaefninu? Þá er það auðvitað fullkominn útúrsnúningur, þar sem hv. þingmanni verður tíðrætt um vinnubrögð og heiðarleika, að bera það hér á borð úr þessari pontu að það sé sérstakt hald í því þegar lögmennirnir eru í raun að segja: Með þessu er Alþingi að fresta vandamálinu.

Ætli sé ekki best að orða spurninguna þannig hvort þingmaðurinn geri athugasemdir við þá nálgun að þetta sé frestun á vandamálinu, sem ég held að sé raunverulega það sem lögmennirnir segja þarna.