149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með álitið eða bréfið fyrir framan mig og skal lesa næsta tölulið eftir þeim lið sem hv. þingmaður var að spyrja út í. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þeir ágallar sem við teljum vera á þessari leið lúta eingöngu að því hvort upptaka og innleiðing gerðarinnar með þessum hætti verði tilefni til athugunar af hálfu ESA, þ.e. hvort innleiðing gerðarinnar standist þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt EES samningnum.“

Síðan er í 3. tölulið farið yfir ástæður þess hvers vegna þeir telja það mjög ólíklegt, mjög sannfærandi rök. Þetta er það sem þeir segja þannig að svarið er nei út frá þessu tiltekna áliti. Þeir nefna þetta ekki í þessu áliti, alla vega ekki svo ég hafi tekið eftir. En hins vegar er það minn skilningur að það sé vissulega verið að fresta spurningunni þar til það verður ákveðið að leggja sæstreng, sem liggur ekki fyrir. Það er engin tillaga um að leggja sæstreng. Erum við að fresta því? Já, sjálfsagt, þangað til það er gert. Þá þarf að taka þessi ákvæði upp. Þannig skildi ég fyrri umsögn þeirra og þannig skil ég sjálfur eðli þessara fyrirvara, að þessi ákvæði taki gildi ef við kjósum einhvern tímann að leggja sæstreng. Ég fór í frekar löngu máli yfir þetta í ræðu minni. Það er ekki eins og ég hafi sleppt þessu. Gagnrýni mín á hv. þm. Ólaf Ísleifsson áðan snerist um það að hann kaus að sleppa því sem var í beinni mótsögn við það sem hann sjálfur sagði að þessir menn væru að segja. Það finnst mér óeðlilegt.

Ég fór í ræðu minni yfir það að vegna þess að verið er að fresta þessu þar til að ákveðið yrði að leggja sæstreng tel ég málið torvelda lagningu sæstrengs. Það er öfugt við það að sleppa því að segja það. Ég sagði það í þó nokkuð löngu máli. En svarið liggur fyrir, strangt til tekið, í áliti lögmannanna tveggja góðu sem við höfum rætt svo mikið.

Mikið vildi ég óska þess, virðulegi forseti, að þeir fengju að tjá sig aðeins á þessu þingi um það hvernig þeim finnst að hafi verið farið með orð sín. Ég held að það væri fróðlegt en reyndar ekki þinginu til sóma.