149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég treysti mér ekki alveg til að svara nákvæmum, sögulegum spurningum um fyrirvara í EES-málum í fortíðinni. Ég þekki bara ekki nógu vel lögfræðina á bak við einhver eldri mál. Ég skoðaði aðeins hið svokallaða hráakjötsmál, sem reyndar var annaðhvort rangt mál eða kemur þessu ekkert við, en það hefur stundum verið nefnt í þessari umræðu. En það er það eina sem ég skoðaði. Það var bara of eðlisólíkt til þess að ég gæti dregið einhvern lærdóm af því sem væri við hæfi hérna. Þannig að svarið er í sjálfu sér nei, ég þekki þetta bara ekki nógu vel.

En hins vegar veit ég til hvers þessir fyrirvarar eru. Þeir eru gagnvart íslenskum rétti. Þessar greinar, 7.–9. í reglugerð 713/2009, hafa í eðli sínu ekkert gildi án sæstrengs, vegna þess að þær varða bara sæstreng og varða bara reglur um sæstreng.

Eins og ég hef sagt áður í öðrum ræðum er þetta svolítið eins og að karpa um hvort það eigi að mála hús blátt eða bleikt sem er ekki til. Það er enginn sæstrengur og það er enginn að leggja til að verði lagður sæstrengur. Þá geta þessi ákvæði ekki komið til álita, eins og kemur reyndar fram hjá þessum sömu lögfræðingum, í d-lið 3. töluliðar, með leyfi forseta:

„Valdheimildir ACER (ESA) ná ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verður lagður. Þær valdheimildir gilda einungis þegar slík tenging er til staðar. Því mun ekki reyna á þessi ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á þessum ákvæðum.“

Þannig að ákvæðin skipta einfaldlega engu máli í praxís fyrr en það er kominn sæstrengur sem þessi ákvæði geta fjallað um.

Hitt er síðan fræðileg og lögfræðileg spurning hvort það skipti samt ekki máli fyrir íslenskan rétt, bara fyrir okkur sjálf, að þetta mál uppfylli ákvæði stjórnarskrárinnar og til þess er fyrirvarinn. Í raun og veru þurfum við sjálf einungis að trúa á þennan fyrirvara. Hann er í raun og veru fyrir okkur vegna þess að ákvæðin skipta ekki máli þar til er kominn sæstrengur. Ef hann verður aldrei, (Forseti hringir.) taka þau aldrei gildi.