149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum farnir að ræða þennan mögulega sæstreng sem ekki er til og verið er að karpa um. Myndlíkingin sem notuð var: Að karpa um hús sem þyrfti mála en húsið væri ekki til. Það er nú svo að þessir títtnefndu fræðimenn hafa farið yfir það mjög ítarlega að jafnvel þó svo að sæstrengurinn sé ekki til, eða að þessi grunnvirki yfir landamæri séu ekki til í svipinn, verði að taka tillit til hans við innleiðingu þessarar gerðar.

Og af því hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, og reyndar flokksbróður hans, hv. þm. Smára McCarthy, hefur orðið tíðrætt um að það sé mikilvægt að halda staðreyndum til haga, ala ekki á ótta og eiga ekki í umræðum sem séu til þess fallnar að búa til eitthvað sem ekki er, þá staðnæmist ég við þetta: Ef hættan er engin, ef búið er að eyða öllum vafa, af hverju fyrirvararnir? Af hverju hefur meiri hluti nefndarinnar ekki fullt sjálfstraust til þess að innleiða orkupakkann? Með öllum þeim kostum sem hér hafa komið fram og engum ókostum ætti það að vera óhætt.

Er það kannski svo að meiri hluti þingmanna treysti þessu ekki alveg og halli sér í megindráttum að áliti Stefáns Más og Friðriks Árna Hirst, vegna þess að það er álitið sem stuðst er við í þingsályktunartillögunni og talað um að sé gert til að hafa belti og axlabönd?

Belti og axlabönd á hverju? Það er eðlilegt að fólk spyrji sig hvort fyrirvararnir (Forseti hringir.) haldi, vegna þess að það eru ekki fordæmi. Þau hafa ekki verið nefnd í mín eyru hér og hef ég spurt allnokkra þingmenn hvort þeir þekki dæmi (Forseti hringir.) þess að þau séu til