149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að heyra þessa spurningu svolítið oft núna. Ég átta mig hreinlega ekki alveg á því hvaðan hún kemur. Henni hlýtur að fylgja sú tillaga að þeir ættu ekki að vera.

Mér væri persónulega alveg sama þótt þeir væru ekki vegna þess að ég tel þá óþarfa, en hins vegar mundi ég vilja hafa þá með af þeirri einföldu ástæðu að mér er annt um að öðrum líði ekki illa með ákvarðanir sínar með tilliti til stjórnarskrár. Ég ber virðingu fyrir því. Mér finnst það fullkomlega eðlileg spurning hvort eitthvert mál stangist á við stjórnarskrá eða ekki, sér í lagi EES-málin.

Ég vildi að ég hefði meiri tíma til að fara meira yfir í framsalsákvæði í stjórnarskrá sem við þurfum og allt það. Það er stór umræða og ég ber virðingu fyrir henni. Það dugar mér til að hafa svona fyrirvara inni, einfaldlega fyrir hv. þingmann og aðra efasemdarmenn.

Það var alveg ljóst þegar málið var til umræðu áður en þingmálið kom fram, þegar þriðji orkupakkinn sjálfur var til umræðu í samfélaginu, að mjög margir þingmenn, eða alla vega nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sér í lagi, lýstu bara opinberlega yfir að þeir mundu ekki styðja hann. Ég geri ráð fyrir því að það hafi haft eitthvað að segja með að þær áhyggjur voru teknar alvarlega og settur inn þessi fyrirvari, í samráði við þessa góðu lögfræðinga sem við höfum verið að tala um. Það róaði áhyggjur þeirra. Mér finnst það gott. Mér finnst miklu betra að við séum að samþykkja mál sem flestum líður vel með gagnvart stjórnarskrá, samanber eiðstaf okkar.

Ég kann ekki alveg að útskýra þetta betur. Ef þetta svar dugar ekki hef ég því miður ekki fleiri. Þetta er ástæðan fyrir því að ég mundi styðja þessa fyrirvara. Mín persónulega skoðun er að þeir séu óþarfi. En það er bara fínt að hafa þá inni. Það kostar ekki neitt. Af hverju ekki að hafa þá? Þá erum við bara öruggari. Það er bara flott.