149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Búið er að ræða þetta mál hér fram og til baka í dag og takast fylkingarnar mjög á. Spurt hefur verið: Höfum við í Miðflokknum áhyggjur af málinu? Já, það höfum við svo sannarlega. Teljum við í Miðflokknum ástæðu til að fara aðra leið? Já, við teljum það vera. Höfum við lagt til hver hún ætti að vera? Já, það höfum við gert. Er sú leið fær samkvæmt EES-samningnum? Já, hún er fær. Hafa sérfræðingar ráðlagt okkur að fara þá leið? Já, þeir hafa gert það.

Svarið við öllum þessum spurningum er já. Hér hafa stuðningsmenn málsins komið upp í löngum bunum og brigslað okkur um alls konar hræðsluáróður, óheiðarleika og ég veit ekki hvað. Auðvitað dusta menn þetta af sér, en ég vona bara að við færum umræðuna til málefnalegri vegar þar sem minni persónulegar hnýtingar verða en verið hafa hér í dag. Svo sem úr báðum áttum.

Stóra myndin í málinu er að flestir hér inni, held ég, eða allir, hafa á einhverjum tímapunkti upplifað að þeim líði illa með málið. Mér heyrðist hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson tala á þeim nótum að honum liðið þannig í upphafi málsins. (Gripið fram í.) — Akkúrat. Þá held ég að ég leyfi mér að trúa því að allir hér inni hafi á einhverjum tímapunkti haft efasemdir um málið.

Eins og málið hefur þróast síðan hafa viðræður verið á milli stjórnarflokkanna, komið hafa meldingar frá ráðherrum. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í viðtali fyrir ekki löngu síðan að hann sæi fyrir sér að fresta málinu fram á haust, á sama tíma og hæstv. iðnaðarráðherra taldi að málið ætti að koma fram núna á vorþingi. Það veldur því, get ég sagt fyrir mig, að mér líður alveg sérstaklega illa með málið, því að það var eins og það gerðist bara yfir nótt að allir bitu á agnið og kyngdu. Allir efasemdamennirnir í stjórnarflokkunum. Það var eins og allir snerust sama daginn.

Hópur traustra manna í Sjálfstæðisflokknum, sumir af okkar albestu mönnum, virtist kyngja röksemdum ráðherranna. Þeir tóku upp á því að skrifa allir sömu greinina og var hún birt hvern sinn daginn frá hverjum og einum þeirra. Svipurinn á hv. þm. Brynjari Níelssyni bendir nú til þess að hann hafi ekki skrifað sömu grein. Þá rifjast upp fyrir mér að ég man ekki eftir að þessi grein frá honum, allir hinir gerðu skrifuðu hana. (BN: Á Facebook.) — Það gæti verið á Facebook, sennilega. Ég held að þarna hafi menn verið að búa sér til einhvers lags fjarvistarsönnun til að hengja hatt sinn á síðar. (HBH: Ert þú með ræðu frá Sigmundi?) Já, já, það er ágætt.

En varðandi feril málsins. Þarna eru settir saman þeir fyrirvarar sem stuðningsmenn málsins virðast telja nægjanlega til að þeim sé ekki um megn að samþykkja málið. Síðan þróast mál með þeim hætti að í nefndinni — nú er ég auðvitað ekki nefndarmaður í utanríkismálanefnd en þær upplýsingar sem ég fékk þaðan voru að fundum hafi verið stýrt með festu og röggsemi. Hv. formaður verður bara lesa í hvað ég er að segja með þeim orðum. Ég held að það sé óumdeilt að ekki var heimilað að kalla til þá gesti sem nefndarmenn vildu sjá koma fyrir nefndina. Auðvitað vakna upp spurningar í svona ferli þar sem kemur mikill fjöldi gesta og setur fram sjónarmið.

Í máli jafn stóru þessu, þó að margir segi að það sé ekkert í því, þykir mér verklag nefndarinnar því miður ekki hafa ýtt undir að okkur efasemdarmönnum líði vel með málið. (Gripið fram í: Þið hefðuð þá bara átt að mæta.) Já, það eru margir sem hefðu betur mætt víðar. Og sumir Sjálfstæðismenn mæta ekki alltaf á réttum tíma. Látum það liggja á milli hluta.

Mikill hluti umræðunnar hefur gengið út á að reyna að núlla út sjónarmið sérstaklega þingmanna Miðflokksins á þeim forsendum að þeim þeir hafi ekki mætt til tiltekins fundar eða að þeir hafi verið í ríkisstjórn á tilteknu tímabili með Sjálfstæðismönnum og þar fram eftir götunum.

Ég held að okkur væri hollt að nálgast málið eins og það liggur fyrir og það eru miklar efasemdir um að það sé eitthvert vit í þessari innleiðingu. Ræður stuðningsmanna innleiðingarinnar hér í dag hafa því miður flestar verið á svo persónulegum nótum á löngum köflum að það eru litlar líkur til þess að við séum eitthvað að nálgast það að róa þá sem efasemdir hafa.

Því er haldið fram að búið sé að koma til móts við öll efasemdasjónarmið. Sé það raunin þá eru þessir fyrirvarar auðvitað einhver sýndarmennska. Ef búið er að koma til móts við öll efasemdasjónarmið — öll, eins og haldið er fram, er mér alveg fyrirmunað að skilja af hverju menn vilja nálgast málið með þeim hætti að þarna séu settir fram einhliða fyrirvarar, leyfi ég mér að segja.

Það er vissulega búið að ræða þessa fyrirvara við ýmsa vini okkar erlendis. En hvers vegna má ekki senda málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar, eins og ferlið er í raun tilbúið fyrir? Er það ekki óumdeilt að slíkt ferli er til staðar? Ég held það. Ég sé alla vega hv. þm. Birgi Ármannsson ekki hrista hausinn eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Bæði Stefán Már Stefánsson, Friðrik Á. Friðriksson Hirst og Carl Baudenbacher hafa allir tilgreint þessa leið sem færa. Allir. (Gripið fram í.) — Nú er það ekki? (Gripið fram í.) Ég veit ekki betur en að svo sé. Við fáum það á hreint hér við umræðu þessa máls. Gagnvart okkur efasemdarmönnum lítur málið töluvert mikið út núna eins og annað mál sem við ræddum á fundi í gær sem sneri að þungunarrofi eða fóstureyðingu, lítur út gagnvart efasemdamönnum í því máli.

Ekki ætla ég var að blanda þessum málum saman. Það er algjör óþarfi að fara í andsvör út af því. Það er upplifunin að þurfa að klára þetta með eins konar „blitz-áhlaupi“. Það þurfi að koma þessu í gegn sem allra hraðast. Það er hluti af því að málið er tekið úr nefnd með þeim hætti sem raunin varð. Ég á mjög bágt með að trúa því, því að það nógur þingtími eftir. Það eru þrjár vikur eftir af skipulögðum þingfundum. Það hefði ekki verið nein áhætta í því fólgin að gefa málinu einn til tvo daga til viðbótar í nefnd, bara engin. Einhverra hluta vegna völdu menn þá leið að heimila það ekki.

Ég verð að segja fyrir mig til viðbótar við þetta að ég er, eins og ýmsir vita hér inni, mikill efasemdamaður um mögulegt ágæti þess að okkar góða þjóð gerist aðili að Evrópusambandinu. (BN: … ESB-sinni.) Mér finnast línurnar vera álíka. (Gripið fram í.) Ég er svona álíka mikill ESB-sinni og ég er Liverpool-aðdáandi. (BN: Sömuleiðis.) Línurnar stjórnarandstöðumegin liggja svo áberandi skýrt þannig að ESB-aðildarsinnarnir eru „on board“, fylgja málinu, en við sem erum hinum megin hryggjar höfum efasemdir um það. Við höfum jafnframt efasemdir um þetta mál. Því einu og sér fylgir ákveðin ónotatilfinning að þessir ágætu flokkar sem vilja fara í þá vegferð, hafa allan tímann viljað innleiða allt saman fyrirvaralaust upp á tíu og punkt og plikt.

Því er haldið fram að þeir sem hafa efasemdir um þriðja orkupakkann séu að grafa undan EES-samningnum. Það er í sjálfu sér ekki loku fyrir það skotið að þeir sem hæst láta í þeim efnum séu, a.m.k. að mínu mati, helst líklegir til þess að vera að gera einmitt það, að setja EES-samninginn í hættu.

Hvers vegna segi ég það? Verði það raunin að eitthvað af áhyggjum okkar í Miðflokknum raungerist þá fyrst höfum við sett þrýsting á EES-samninginn. Það sem komið hefur fram í óteljandi ræðum í dag um að þetta séu einhver samantekin ráð aðila sem vilja að grafa undan EES-samningnum held ég að sé bara misskilningur. Alla vega er ég ekki þeim hópi. Það getur vel verið að einhverjir hafi það sem hluta af rökum sínum, en svo er ekki yfir línuna. Ég er þeirrar skoðunar að raungerist eitthvað af áhyggjum okkar í Miðflokknum hvað þetta mál varðar verði fyrst þrýstingur á þennan samning. Þá verða menn bara að standa frammi fyrir því.

Mikið hefur verið komið inn á þau sjónarmið í dag sem koma fram í álitsgerð lögmannanna, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Á. Friðrikssonar Hirsts í álitsgerð þeirra. Í rauninni má segja að stuðningsmenn málsins hengi sig mjög á það bréf sem þeir sendu utanríkisráðherra að aflokinni fyrri umr. um málið þann 10. apríl 2019. Það er svo sem eðlilegt að stuðningsmenn málsins vilji velja málsgreinar út úr þeim texta, sem er ekki langur, ein A4 síða. En lögmennirnir staðfesta einmitt að þarna sé verið að fresta hinum lögformlega vanda. Hann sé í rauninni færður til þess tíma þegar sæstrengur verður lagður. (ÁÓÁ: Ef.) — Þegar og ef sæstrengur verður lagður. Það slær mig svolítið eins og þegar samninganefnd Íslands forðum var búin að semja um sjö ára greiðsluskjól í fyrsta Icesave-samningnum. Nálgunin er einhvern veginn þannig að við förum yfir þá brú þegar við komum að henni.

Lögmennirnir segja í 4. lið þessa minnisblaðs sem skilað var inn, með leyfi forseta:

„Í áliti okkar lögðum við einnig til aðra leið, að Alþingi hafnaði innleiðingu gerðanna og að málið yrði tekið upp að nýju í sameiginlegu EES nefndinni með það fyrir augum að Ísland fengi undanþágu. Þessi leið hefur þann kost lögfræðilega umfram þá leið sem valin var að í henni felast ekki þeir lögfræðilegu óvissuþættir sem að ofan er lýst.“

Ég hef ekki lengur tölu á hversu oft hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur lesið upp 1. mgr. þessa minnisblaðs. Það byrjar, með leyfi forseta, á eftirfarandi:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjómarskrá.“

(Gripið fram í.) — Við erum bara að tala um hlutina eins og þeir eru, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Ég vona að þú virðir alla vega mér það til vorkunnar að ég er að tala í fyrsta skipti og ég veit ekki til þess að ég hafi reynt að gera neinum upp skoðanir eða leggja mönnum orð í munn. Þá verð ég að segja til baka, eftir ávirðingar þínar í ræðum hér fyrir stuttu síðan, að þær voru býsna sérvaldar setningarnar sem þú tók sjálfur út úr þessu sama minnisblaði. (Forseti hringir.)

(Forseti (GBr): Ekki skal ávarpa þingmann í 2. persónu.)

Afsakið. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson.

Ég þakka forseta fyrir ábendinguna. Það er einhvern veginn þannig í þessu máli að áhyggjurnar felast í þessari mögulegu framtíðarlagningu sæstrengs. Þar liggur skurðpunkturinn. Hið raunverulega áhyggjuefni. Það eru ekki mjög mörg ár síðan við sátum uppi með ríkisstjórn í fjögur ár, 2009–2013, þar sem annar forystumaður ríkisstjórnarinnar sagði daginn fyrir kosningar: Nei, nei, nei. Og síðan efnislega:

Við munum ekki koma ríkisstjórn sem sækir um aðild að Evrópusambandinu.

Þremur vikum síðar var það raunin að við vorum komin í það ferli.

Þannig að það sem vekur áhyggjur hjá a.m.k. mér er að þetta geti gerst mjög hratt. Við sjáum bara að ríkisstjórn sem myndast með þeim hætti að áhugi meiri hluta er fyrir þessari nálgun, getur keyrt svona breytingu mjög hratt í gegn. Þess vegna finnst mér bara kostur að við klárum þetta debatt núna með þessari innleiðingu en frestum því ekki inn í einhvern ótilgreindan tíma í framtíðinni sem mögulega er hægt að velja út frá því hvernig vindar blása tímabundið í Stjórnarráðinu eftir nokkur ár.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri núna en ég vona að þessi umræða þróist og verði málefnaleg til loka. Ég brýni okkur öll til að fara varlega í þessu máli. Ég held að sú leið sem við Miðflokksmenn leggjum til, að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sé prýðileg lausn á þeirri tortryggni sem uppi er í málinu. Það væri alla vega einnar messu virði að byrja þar.