149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er auðvitað strax til að byrja með rétt að hafa í huga að það er nokkur eðlismunur á orkumarkaði í Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar. Einfaldlega bara út frá landafræði. Við erum ein og einangruð úti í Atlantshafi samanborið við það að Noregur hefur selt orku yfir landamæri um töluvert langan tíma.

Fyrst vil ég segja að við getum ekki tekið ákvarðanir út frá áhyggjum manna í Noregi. Ég held að þá fyrst værum við í vandræðum ef við ætluðum okkur að reyna að nálgast mál þannig vegna þess að í Noregi eru mjög skiptar skoðanir um þetta.

Ef spurningin var hvort ég teldi Norðmenn hafa afsalað sér réttindum til auðlinda sinna held ég að sú spurning, nákvæmlega þannig orðuð, sé ekki það sem áhyggjur mínar byggja akkúrat á. (Forseti hringir.) Það er í rauninni stjórn orkumálanna sem áhyggjurnar byggjast á, ekki auðlindirnar sjálfar.