149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:18]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég upplifði ekki mikinn sannfæringarkraft í ræðu hv. þingmanns. Ég var svolítill efasemdarmaður á sínum tíma og sagði við menn: Hér þarf að tryggja ýmis atriði, að við höfum yfirráðin yfir auðlindunum, við ráðum hvort það sé lagður sæstrengur og við ráðum hvernig fyrirtækin eru hér. Ég hef ekki fengið almennileg rök fyrir því að eitthvað í samningnum eða orkupakkanum, í regluverkinu, hnekki þessu.

Þá spyr ég: Er þingmaðurinn að halda því fram að þó að ekki séu nein bein ákvæði um þetta í reglugerðinni eða tilskipuninni þá sé það einfaldlega túlkun manna, með því að skoða samninginn í heild, orkupakkann í heild, að þeir geti stjórnað þessu engu að síður? Að vegna þess að við erum á innri markaði þurfi að vera slíkt fyrirkomulag? (Forseti hringir.) Eru menn að reyna að segja það? Ég gæti skilið þau rök en það er ekkert í þessum pakka með beinum hætti sem ætti að valda okkur þeim áhyggjum.