149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:21]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá held ég að við séum komin að kjarna málsins af því að ég var aðeins að reyna að hjálpa upp á að það gæti kannski verið einhver tilfinning bak við þetta. Erum við þá ekki að ræða um EES-samninginn í heild? Eru menn þá ekki raunverulega segja: Þessi samningur er kannski til lengri tíma litið ekki mikið hagsmunamál fyrir okkur? Væri ekki eðlilegra að taka þá umræðu?

Í orkupakkanum sjálfum sé ég ekki það sem menn eru að tala um, þær áhyggjur sem menn hafa. Mér finnst mjög langsótt að hægt sé að sjá það. Áhyggjur manna snúa væntanlega að því að til lengri tíma litið, miðað við þróun Evrópusambandsins og þessa samstarfs, muni menn segja: Ef þið ætlið að vera með þá verðið þið bara að vera almennilega með. Það er væntanlega þær áhyggjur sem þið hafið, hv. Miðflokksþingmenn.