149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Honum er hvenær sem er velkomið að heilsa upp á okkur í Hlaðbúð og fara yfir þessi mál. Það sem við leggjum til er einmitt að við nýtum okkur þau ákvæði EES-samningsins sem við teljum fær í þessu máli. Ég er í sjálfu sér ekki á þeim stað persónulega að þetta sé ástæða til að taka upp EES-samninginn í heild sinni. Verði það einhvern tímann raunin þá endar það væntanlega með því að Ísland gerir tvíhliða samninga með einum eða öðrum hætti eins og við erum að gera mörgum sinnum á ári. Ég held að ef okkur auðnast að fara þá leið sem þegar er skrifuð inn í samninginn (Forseti hringir.) muni það hugsanlega verða til þess að verja samninginn til lengri tíma en þessi salami-leið, sem oft hefur verið talað um, er auðvitað lýjandi.