149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get bara alveg upplýst hv. þingmann um það að alla vega samkvæmt mínum skilningi á þessu máli, og ég er búinn að skoða það frekar vel, er ekkert í því sem aðstoðar ríkisstjórnina við að leggja sæstreng ef hún vill. Þvert á móti, eins og ég fór yfir í andsvari við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrr í dag, teldi ég að samþykkt þriðja orkupakkans myndi gera henni erfiðara fyrir. Vegna þess að þá kemur væntanlega upp aftur þessi stjórnarskrárlega spurning við lagningu sæstrengs, en einungis ef við samþykkjum þriðja orkupakkann. Hann er skilyrði fyrir því að sú stjórnarskrárlega spurning komi aftur upp. Annars verður hún aldrei í samhengi við lagningu sæstrengs og þar af leiðandi ekki til trafala.

Hitt er síðan annað sem ég tel mikilvægt, ef við höfum áhyggjur af því að ACER eða ESA fari að vasast í okkar málum, að ef þriðji orkupakkinn er innleiddur áður en sæstrengur er lagður eru þessar orkustofnanir væntanlega búnar að samræma reglur sínar áður en það kemur til sæstrengsins og þar af leiðandi aldrei þörf á neinum afskiptum ESA og aldrei nein þörf á afskiptum ACER. (Forseti hringir.) Það væri bara frá upphafi samþykkt hjá báðum orkustofnunum, samanber 8. gr.

Ég get svo sem bara endurtekið spurninguna: Hvað er það við þriðja orkupakkann sem vekur áhyggjur hv. þingmanns í sambandi við sæstreng? Hvað er slæmt orkupakkanum í sambandi við sæstreng?