149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það. Síðan beinir hv. þingmaður í ræðu sinni máli sínu að því að röksemdir þeirra sem vilja samþykkja málið beinist eingöngu að því að einhver hafi ekki mætt á fundi eða einhver hafi gert eitthvað í málinu áður. Það er auðvitað líka mikill útúrsnúningur og algjört aukaatriði í þessu máli og kemur því sjálfu ekki við eins og kemur glögglega í ljós þegar lesið er meirihlutaálit utanríkismálanefndar. Fyrir því eru ýmsar röksemdir.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í minnihlutaálit utanríkismálanefndar. Ég hef spurt að því tvisvar í dag hvar það kemur fram í þriðja orkupakkanum, eitthvað sem segir að það eigi að skipta upp stórum orkufyrirtækjum eins og Landsvirkjun, eins og haldið er fram algerlega eins og staðreynd í áliti minni hluta utanríkismálanefndar. Ég hef ekki fundið það enn þá í þriðja orkupakkanum.