149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

afnám krónu á móti krónu skerðingar.

[15:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrstu 65.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði en 0 fyrir öryrkja. 100% skattur af lífeyrissjóði er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð. Eignaupptaka á lögþvinguðum sparnaði þeirra. Og ekki er bara verið að sparka í fjárhagsöryggi öryrkjanna heldur líka trampa á þeim með skítugum skattaskónum. 780.000 á ári eru þessi eignaupptaka. En króna á móti krónu skerðingin er einnig enn þá inni.

Ég sá fyrirsögn um daginn: Krónu á móti krónu skerðingin verður tekin út. Þegar ég las fréttina sá ég að þar var vitnað í Ásmund Einar Daðason, hæstv. félags- og barnamálaráðherra, og þar kom fram að draga ætti úr áhrifum krónu á móti krónu skerðingu. Hvað þýðir það? Jú, það á sennilega að gera það í áföngum. Hvað þýðir það? Jú, öryrkjarnir eiga að fá einhverja afganga ef þeir verða einhverjir. Og samkvæmt fjármálaáætlun verða greinilega engir afgangar.

Við erum að tala um 2,9 milljarða. Hvernig á að skipta því? Hvenær? Við erum að tala um 4 milljarða í viðbót á næsta ári. Það dugar ekki. Það er bara einn fjórði upp í það sem þarf. Við erum að tala um að 2,9 milljarðar dugi upp í 10.000 kr. á mánuði. En hver er sú upphæð sem þarf að taka? Núna er hún yfir 50.000 kr. Það segir sig sjálft að það þarf að lágmarki 12 milljarða í þetta. Þá er líka spurningin: Hvað á að gera þetta á löngum tíma? Einu ári? Tveimur árum? Tíu árum? Áratug? Tugum ára?

Engin svör hafa fengist við þessu. Svo furða hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin sig á því að öryrkjar hafi ekki skrifað undir nýja skýrslu um starfsgetumatið. Þeir treysta þeim ekki lengur (Forseti hringir.) vegna þess að þeir svíkja allt sem þeir lofa.