149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð inn í umræðuna um það mál sem liggur fyrir. Við getum sagt „að gefnu tilefni“ vegna þess að margt sem komið hefur fram í umræðum um þetta mál, bæði í fyrri umr. og reyndar nú í síðari umr., eftir því sem hún er komin fram, gefur tilefni til athugasemda og að sjónarmið séu áréttuð.

Hæstv. forseti. Mér hefur þótt, ekki síst eftir því sem ég hef kynnt mér málið betur og umræðunni hefur undið fram, að vægi þessa máls í umræðunni hafi orðið töluvert meira en efni málsins gefur tilefni til. Ég vildi líka taka fram að ýmsar áhyggjur sem fram hafa komið, jafnvel heimsendaspár, ef svo má að orði komast, varðandi áhrif innleiðingar þessa orkupakka, eru að mínu mati án tilefnis og án tengsla við veruleikann.

Að því sögðu vil ég þó taka fram að ég hef skilning á því að málið geti vakið margs konar tilfinningar og áhyggjur. Það er skiljanlegt vegna stöðu landsins í samskiptum við aðrar þjóðir Evrópska efnahagssvæðisins, stöðu EES-samningsins gagnvart ESB og stjórnskipulegri stöðu sem vissulega blandast inn í þessa umræðu; ég hef skilning og samúð með því að það geri að verkum að menn vilji nálgast málin af varfærni.

Ég hef líka skilning á því að öll mál sem varða orkuna, raunar auðlindir almennt en ekki síst orkuna, geti verið viðkvæm og geri að verkum að menn vilji fara af gætni. Ég held að það sé í sjálfu sér eðlilegt, út frá þessum tveimur sjónarmiðum, að menn skoði þetta mál og önnur af sama toga vandlega, leggist yfir hver hugsanleg áhrif innleiðingar af þessu tagi geti verið, meti hvort verið sé að ganga of langt miðað við þær stjórnskipulegu heimildir sem við höfum og þess háttar. Ég held að full ástæða sé til að þessi mál fái athygli og full ástæða til þess að þingið á hverjum tíma fari varlega þegar málefni af þessu tagi eru til umræðu og umfjöllunar. Þannig hefur það verið varðandi fyrri EES-mál sem upp hafa komið í þinginu. Þau eru nokkur, reyndar mun færri en oft er látið í veðri vaka í opinberri umræðu, þar sem raunverulega hefur þurft að taka afstöðu til stjórnskipulegra heimilda þingsins til innleiðingar á grundvelli heimilda stjórnarskrár.

Ég ætla tímans vegna ekki að fara út í einstök mál af því tagi en nýleg mál sem við höfum verið að ræða varða t.d. persónuvernd á síðasta ári, fjármálamarkaði 2016 og frá fyrri árum get ég nefnt aðild að regluverki á sviði flugöryggismála, loftslagsmála og samkeppnismála. Þetta eru nokkurn veginn þau mál sem hefur reynt á á síðustu 15–20 árum að þessu leyti. Í öllum þessum tilvikum hefur þingið tekið fyrir, fjallað um og komist að niðurstöðu um stjórnskipulegar heimildir í þessu sambandi. Þessi mál eru hvert með sínum hætti en segja má að í meginatriðum eigi þau það sammerkt að fundin hefur verið ákveðin tveggja stoða lausn sem talin hefur verið samrýmanleg stjórnarskrá og svo er einnig í þessu máli.

Þegar ég kom að þessu máli á fyrri stigum sem nefndarmaður hér í þinginu og formaður í utanríkismálanefnd á árunum 2013–2015 var þetta auðvitað sú spurning sem menn veltu fyrst og fremst fyrir sér í þessu, hvort sú útfærsla sem gert er ráð fyrir við innleiðingu þessara gerða væri samrýmanleg stjórnarskrá. Á árunum 2014 og 2015 man ég eftir nokkrum bréfaskriftum og allmörgum fundum í utanríkismálanefnd þar sem þessi mál voru tekin fyrir. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði reyndar einnig um þessa þætti og atvinnuveganefnd á þeim tíma. Niðurstaða þeirrar vinnu var að sú leið sem hér er lögð til í innleiðingu þessarar reglugerðar væri samrýmanleg stjórnarskrá. Það má segja að sá þáttur málsins hafi verið styrktur til mikilla muna, bæði með lögfræðilegum álitsgerðum sem unnar hafa verið á þessu ári og því síðasta, og liggja frammi í gögnum málsins, og ekki síst í þeirri lokaútfærslu sem birtist þegar málið var lagt fram hér á þingi um mánaðamótin mars/apríl.

Ég nefni þetta vegna þess að mér finnst kjarni málsins kannski birtast í þessu. Ég held að við getum sagt að það sem þingið þurfi að velta fyrir sér, þegar stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt í sambandi við þetta mál, sé fyrst og fremst hvort við séum að ganga lengra en okkur er heimilt miðað við stjórnarskrána og þess vegna mun ég gera það að aðalumfjöllunarefni mínu hér í dag.

Áður en ég fer nánar í þann þátt vil ég segja að ég tel að ýmsum öðrum áhyggjum og fullyrðingum sem hafa komið fram í þessari umræðu — um stórfellt framsal yfirráða yfir orkuauðlindinni og orkumálum Íslendinga til Evrópusambandsins eða erlendra aðila, um það að íslenskum stjórnvöldum verði ómögulegt að standa gegn kröfum um lagningu sæstrengs og síðan um þær afleiðingar sem hugsanleg lagning sæstrengs kynni að hafa á raforkuverð og aðra slíka þætti — hafi öllum verið svarað afskaplega skýrt og greinilega í þessari umræðu. Við ættum ekki að þurfa að eyða mikið meiri tíma í þau sjónarmið.

Ég ætla ekkert að fordæma einn eða neinn fyrir að velta þeim málum upp í þessari umræðu, hvort sem það er í umræðum hér í þingsal eða í nefndum þingsins, en ég tel að menn eigi ekki, miðað við þá yfirferð sem átt hefur sér stað um málið, að þurfa að hafa áhyggjur eða deila meira um þá þætti. Það er ekki um það að ræða að verið sé að færa útlendingum forræði yfir auðlindinni, orkuauðlind Íslendinga. Það er ekki verið að afsala orkuauðlindinni. Ekkert í þessu máli gefur tilefni til að draga þá ályktun. Í annan stað er ekkert í þessu máli sem gerir að verkum að menn þurfi að hafa áhyggjur af því að sæstrengur verði lagður ef ekki er til þess vilji í þessum sal og af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það verður enginn neyddur til eins eða neins í því sambandi. Í þriðja lagi þurfa menn ekki að hafa áhyggjur af afleiddum áhrifum sæstrengs út af þessu máli. Ef tillögur koma fram um að leggja sæstreng til orkusölu til annarra landa getum við velt fyrir okkur kostum og göllum við þá gjörð. Þá getum við velt því fyrir okkur hvað það þýði. Það erum við ekki að gera. Við erum ekki að taka afstöðu til þeirrar spurningar í þessu máli.

En aftur varðandi stjórnskipunarþáttinn held ég að í þessu máli hafi verið unnin óvenjugóð undirbúningsvinna og greinargóðar greinargerðir lagðar fram af hálfu fjölmargra fræðimanna á sviði lögfræði, margra með sérþekkingu á nákvæmlega þeim sviðum sem hér eru til umfjöllunar, í stjórnskipunarrétti, Evrópurétti og í orkuréttindum. Við getum sagt að þessar álitsgerðir séu allar á einn veg nema að einu leyti. Ákveðinn greinarmunur kemur fram í áliti fræðimanna varðandi eitt tiltekið atriði, svo við einföldum málið, það er fyrst og fremst eitt atriði þar sem er ákveðinn greinarmunur á þeim sjónarmiðum sem liggja frammi. Annars vegar er það sjónarmið sem hefur komið fram í margtilvitnaðri greinargerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og hins vegar allra annarra, Skúla Magnússonar, Davíðs Þórs Björgvinssonar, Birgis Tjörva Péturssonar, Ólafs Jóhannesar Einarssonar o.fl.. Það er eitt atriði sem skilur á milli. Og hvað er það? Jú, það er mat á því hvort það tiltekna atriði í þessum gerðum sem felur í sér að undir tilteknum kringumstæðum verði Eftirlitsstofnun EFTA falið úrskurðarvald í tilteknum ágreiningsmálum, hvort þau séu samrýmanleg stjórnskipan Íslands.

Til að gera þetta einfaldara má segja að fræðimenn hafi lagt það til grundvallar — og þó að orðalagið sé stundum mismunandi er nálgunin alltaf sú sama — að fyrir hendi séu ákveðnar heimildir fyrir löggjafann til að taka ákvarðanir um framsal valds til alþjóðlegra eða fjölþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í þessu máli snýst greinarmunurinn á milli álits fræðimanna um eitt, þ.e. hvort það framsal sem felst í þessum tilteknu heimildum fyrir Eftirlitsstofnun EFTA sé á takmörkuðu sviði og vel afmarkað. Það er eiginlega bara það sem er álitamál á milli Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og svo hinna. Friðrik Árni og Stefán Már telja að þetta sé ekki nægilega vel afmarkað, að þetta sé of víðtækt framsal valdheimilda, en aðrir fræðimenn hafa komist að annarri niðurstöðu.

Ef við ætlum að súmmera upp það sem fram kemur í þessum álitsgerðum held ég að þarna sé greinarmunurinn.

Hvað önnur skilyrði varðar er ekki ágreiningur milli fræðimanna um að þau séu uppfyllt. Friðrik Árni og Stefán Már leggja annan skilning í kröfuna um að framsalið sé takmarkað og á afmörkuðu sviði en hinir. Ég get sagt að ég hef fyrir allnokkru komist að þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti að ég tel að það framsal sem þarna er um að ræða til Eftirlitsstofnunar EFTA sé á vel afmörkuðu og takmörkuðu sviði og er þar af leiðandi fremur sammála öðrum sem um þetta hafa skrifað, og ég nefni sérstaklega Davíð Þór Björgvinsson og Skúla Magnússon sem báðir lögðu inn í þessa vinnu mjög ítarlegar og góðar greinargerðir.

Það má hins vegar segja að í þeirri leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara á lokastigum málsins, áður en málið yrði lagt fyrir þingið, sé þessi ágreiningur eða þessi vafi ef við getum orðað það svo, settur til hliðar. Stefán Már og Friðrik Árni orða það á einhverjum stað á þann veg að þessu álitamáli sé frestað. En það er alla vega um það að ræða að miða við það í hvaða búningi málið er í dag reynir ekki á þennan stjórnskipulega þátt fyrr en og ef ákvörðun yrði tekin um lagningu sæstrengs — sem er ekki á dagskrá, bara svo að það sé ítrekað. Það er ekki á dagskrá.

Þó að vissulega hafi verið alls konar vangaveltur og umræður, tillögugerð og skýrslugerð á undanförnum árum eru ekki af hálfu íslenskra stjórnvalda eða meiri hluta þingsins nein áform eða ákvörðun um að fara í lagningu sæstrengs. Persónulega held ég að það sé töluvert langt undan. En það má segja að vissulega sé með þeirri leið sem hér er farin um að ræða ákveðna frestun á þessu álitamáli og það eru jafnframt fyrirheit um að ef til þess kemur að þingið standi frammi fyrir því að taka slíka ákvörðun verði þessi stjórnskipulegi þáttur tekinn upp, farið yfir hann og hann ræddur aftur áður en ákvörðun er tekin.

Eina atriðið þar sem við getum sagt að mismunandi sjónarmið hafi verið fyrir hendi af hálfu fræðimanna er tekið til hliðar og geymt þar til það verður praktískt, ef svo má segja, því að það verður ekki undir neinum kringumstæðum praktískt nema ef við stöndum frammi fyrir ákvörðun um lagningu sæstrengs. Þetta atriði held ég að menn verði að hafa í huga í þessari umræðu og þess vegna er ég ekki í nokkrum vafa um að sú leið sem við leggjum til í þessu máli stenst stjórnarskrá. Við erum ekki að brjóta stjórnarskrá með því sem við erum að gera. Þær áhyggjur, sú gagnrýni og þær athugasemdir sem fram hafa komið í þessu máli eru að mínu mati ekki rökstuddar, eiga ekki við rök að styðjast, þegar við skoðum málið í þeim búningi sem það liggur fyrir í, þegar við skoðum með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hafa gefið yfirlýsingar, hvaða ákvarðanir við erum að skuldbinda okkur til þess að fela þinginu og svo má lengi telja.

Þó að menn hafi hugsanlega haft lögmætar og góðar ástæður til þess að fara varlega í þessu máli er niðurstaðan með þeim hætti, og málið komið í þann búning, að þeim áhyggjum og athugasemdum og gagnrýnisröddum sem fram hafa komið hefur að mínu mati verið svarað.