149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá lagalegi fyrirvari birtist í frágangi málsins. Lagalegur fyrirvari er ekki eitthvað sem maður finnur módel að í lögfræðilegri formálabók. Það liggur fyrir að með innleiðingu þessara reglugerða og ákvæða erum við að innleiða með hefðbundnum hætti. Hins vegar liggur skýrt fyrir að sá meiri hluti þingsins sem mun afgreiða málið gerir þann fyrirvara varðandi lagaleg atriði í því að þau ákvæði sem varða tengingu milli landa, tengingu í gegnum sæstreng, komi til endurskoðunar og umfjöllunar og mats á stjórnskipulegum þáttum áður en ákvarðanir um slíka tengingu verða lagðar fyrir. Slíkar tillögur liggja ekki fyrir og slík ákvörðun er hvorki í undirbúningi né á borðinu. Við getum kallað þetta lagalegan fyrirvara eða yfirlýsingu eða hvaðeina en efnislega held ég að hv. þingmaður þurfi ekki að efast um hvað í þessu felst af okkar hálfu.